Spurt og svarað

22. febrúar 2007

Litningarannsóknir

Ég er 9 vikur gengin með annað barn.  Er að velta fyrir mér hvort litningaprófið ég ætti að fara í, cvs eða amnio.  Ég er 44 ára, þungunin var algert surprise og mjög velkomin svona á síðustu stundu. Hef verið að lesa mér til um þessi próf og eru upplýsingar mismunandi eftir síðum.  Er meiri hætta á fósturláti í cvs prófinu og er það ekki eins áreiðanlegt og
amniosynthesis?  Fer áhættan minnkandi með vikunum og er betra að gera prófið í 14 viku?  Hvaða þættir eru lagðir til grundvallar ákvarðanaröku um hvort prófið konur fara í?

Kærar þakkir fyrir frábæran vef.


Komdu sæl.

Það er rétt að þegar maður les um þessar sýnatökur eru upplýsingarnar mjög misjafnar.  Oftast er þetta stutt með rannsóknum sem ekki hafa sýnt sömu niðurstöðurnar.  Það er því skiljanlegt að fólk verði hálfruglað þegar það er að leita sér upplýsinga um þessi mál.  Því miður hef ég engan einn sannleik í málinu.  Við yfirferð yfir fagbækur komst ég að því að misjafnt er hvenær ráðlagt er að konur fari í þessar skoðanir en það virðist öruggara eftir því sem lengra líður á meðgönguna.  Það er þó talið tiltölulega öruggt að fara í fylgjusýnatöku fyrr en legvatnsástunguna. Ég læt hér fylgja með ýmsa fróðleiksmola um hvora rannsókn fyrir sig og vona að það svari að einhverju leiti spurningum þínum.

Legvatnsástunga (Amniocentesis)er framkvæmd þannig að fyrst er barnið, fylgjan og legvatnið skoðað í sónar.  Svo er húðin á kviðnum hreinsuð.   Nál er svo stungið í gegnum kviðvegginn og legið og í poll af legvatni.  Fyrstu millilítrarnir sem eru dregnir upp eru ekki notaðir til að minnka hættu á að frumur móðurinnar mengi ekki sýnið.  Svo er dregið upp legvatn sem er sent í rannsókn.  Settar eru umbúðir yfir gatið og gjarna notaður spreyplástur sem lokar gatinu vel.  Rannsóknin er gerð í ómskoðun þannig að nálin sést allan tímann.  Á eftir er svo hlustað eftir hjartslætti barnis til að meta hvort allt sé í lagi.  Hægt er að gera þetta á ýmsum tímum meðgöngunnar en algengasti tíminn 15. - 16. viku. 

Legvatnsástunga er gerð til að:  rannsaka hvort um litningagalla er að ræða, finna út kyn barnsins, meta styrk alpha-fetopróteins sem getur m.a. sagt til um galla á meltingarfærum nýrum og taugakerfi,  finna út Lecitin-spingomyelin hlutfall sem segir til um lungnaþroska barnsins, mæla kreatin sem segir til um þroska barnsins, skoða  DNA, finna blóðflokkamisræmi,  sem meðferð við miklu eða litlu legvatni og skoða ensym hjá barninu.

Þetta er ekki alveg hættulaus rannsókn.  Áhættan fyrir móðurina er helst sýking, kvíði, blæðing, missir barns og blóðblöndum barns og móður.  Mæður í Rh. neikvæðum blóðflokki þurfa að fá sprautu til að koma í veg fyrir mótefnamyndun.  Áhættan fyrir barnið er meiri og getur leitt til dauða (1%).  Ástæður þess geta verið skyndilegt fósturlát, sýking, blæðing, leki á legvatni, fæðing fyrir tímann og öndunarörðugleikar.

Foreldrar þurfa að bíða í 3-4 vikur eftir niðurstöðunum og rannsóknir hafa sýnt að konum finnst það oft það versta við rannsóknina.

Fylgjusýnataka (Chorionic Villus Sampling) er gerð á sama hátt nema þá er húðin á stungusvæðinu deyfð og nálinni stungið í fylgjuna.  Þetta er hægt að gera frá 10. viku meðgöngu.  Niðurstöður er hægt að fá eftir fáeina daga.

Þessi rannsókn hjálpar til við að finna ýmsa galla hjá barninu eins og erfðafræðilega frumugalla, efnaskiptagalla og litningagalla.  Einnig að finna út kyn barnsins. 

Helstu áhættuþættirnir eru að mengun verði í sýnatökunni þannig að frumur móðurinnar blandist sýninu og getur það leitt til falskrar niðurstöðu.  Aðrir áhættuþættir eru sýking, rof á belgjum og blóðblöndun barns og móður.  Konur sem eru Rhesus neikvæðar fá því sprautu eftir rannsóknina til að koma í veg fyrir mótefnamyndun.   Skrifað hefur verið um nokkur tilfelli þar sem börn hafa skaðast t.d. á útlimum við rannsóknina en í öllum tilfellum var konan komin minna en 9 vikur á leið.  Þessari rannsókn fylgir líka oft kvíði verðandi foreldra fyrir niðurstöðunni.  Hættan á fósturláti er skráð um 1% en samt aðeins meiri en við legvatnsástungu.

Hægt er að finna upplýsingar um litningarannsóknir á vef Landspítala Háskólasjúkrahúss www.landspitali.is undir kvennasvið.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
22.02.2007.

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.