Spurt og svarað

13. janúar 2014

LKL mataræði og meðganga

Hvað segið þið um lákolvetnafæði og meðgöngu? Ég búin að vera á því í 7 mánuði og líður svo vel en ég var að komast að því að ég er ólétt, á ég að hætta?Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Mikil umræða hefur verið um lágkolvetna mataræði á undanförnum misserum. Skilgreiningar á hvað er lágkolvetna mataræði eru mjög breytilegar og sérfræðingar um mataræðið eru margir og sumir hverjir sjálfskipaðir án þess að rannsóknarniðurstöður liggi að baki ráðleggingum þeirra. Í rannsóknum um næringarinnihald er yfirleitt miðað við að lágkolvetna fæða innihaldi minna en 55% af heildarorku í formi kolvetna (undir 45-60% orku miðað við nýjar Norrænar ráðleggingar í desember 2013). Lágkolvetna fæðið sem notað er í rannsóknum gefur frá 5% af heildarorku uppí 40% í formi kolvetna. Það má því sjá á þessu að lágkolvetna fæði er ekki sama og lágkolvetna fæði!

Á meðgöngu er mikilvægt að tryggja gott næringarástand ekki eingöngu móðurinnar vegna heldur einnig í þágu ófædda barnsins sem hún ber undir belti. Ef verðandi móðir er á lágkolvetna fæði getur það haft áhrif á vöxt barnsins og hvernig það þroskast í móðurkviði. Fæðið getur auk þess komið í veg fyrir að móðir og barn fái þau næringarefni sem eru þeim báðum mikilvæg til þess að viðhalda heilbrigði. Mögulega er barn móður sem hefur verið á næringarskertu mataræði á meðgöngu líklegra til að eiga við offituvanda að stríða síðar á ævinni.

Ráðleggingar okkar til barnshafandi kvenna er að forðast lágkolvetna fæði. Ekki liggja fyrir sterkar rannsóknarniðurstöður sem gefa það í skyn að það sé óhætt fyrir ófædda barnið að vera á því fæði. Verðandi móðir þarf að neyta trefja, ávaxta og próteins úr dýraríkinu en algengt er að í lágkolvetna mataræði sé neysla þess takmörkuð. Einnig er mikil neysla á fitu og salti í LKL fæði sem ekki er hægt að mæla með á meðgöngu.

Svar okkar við spurningu þinn er því - já við mælum með að þú hættir á Lágkolvetna fæði. Ef þú þarft að hafa sérstaka stjórn á þyngdaraukningu á meðgöngu fáðu þá ráð hjá ljósmóðurinni þinni, hún getur leiðbeint þér og jafnvel fengið fyrir þig ráðgjöf hjá næringarfræðingi. Hjá ljósmóður þinni færð þú upplýsingar um hversu mikil þyngdaraukning er æskileg miðað við hver líkamsþyngdarstuðull (LÞS=BMI) þinn var fyrir þungun.

Lýðheilsustöð hefur gefið út leiðbeiningar um fæði sem mælt er með á meðgöngu  sem má nálgast hér.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
13. janúar 2014
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.