Lokkar í nafla og sköpum

13.10.2006

Ég er ófrísk en þarf að vita nokkuð tengt lokkum í sköpum kvenna, ég er nefnilega með lokk í innri skapabarminum og þarf að vita hvernig það endar í fæðingunni ef að það teygist eitthvað mikið á þessu.  Það væri gott að fá að vita hvernig ég á að meðhöndla þetta ég er líka með gat í naflanum en ég er nú búin að fá að vita að það verður
ekkert mikið vandamál með það.
Takk fyrir góðan og fræðandi vef


Komdu sæl og takk fyrir að leita til okkar.

Ég er hrædd um að þú verðir að taka lokkinn úr þér fyrir fæðinguna.  Það teygist mjög mikið á skapabörmunum í fæðingunni og þeir liggja þétt að höfði barnsins.  Það getur því rifnað út frá lokknum og svo getur hann meitt barnið í fæðingunni.
Í sambandi við naflalokkinn þá teygist auðvitað á húðinni þar á meðgöngunni og oft myndast ljót ör þar sem lokkurinn er, þó það sé ekki algilt.  Margar konur velja því að taka naflalokkínn úr þegar kúlan stækkar.
 
Bestu kveðjur
 
yfirfarið 28.10.2015