Lóritín og Livostin

08.08.2007

Sæl

Ég er komin 12 vikur á leið og hef verið að taka einstaka sinnum lyfið Lóritín á meðgöngunni vegna slæms frjókornaofnæmi og stundum hef ég fengið dropa í augun sem nefnast Livostin. Læknirinn minn sagði að ég mætti taka inn þetta lyf, en nú er ég að heyra annað!

Ég er alveg í losti hérna og veit í raun ekki alveg hvernig ég á að vera. Hvað áhrif getur þetta haft á fóstrið? Ég verð ofsalega þakklát ef ég fæ svar sem fyrst!


Sæl og blessuð!

Í Sérlyfjaskránni stendur að öryggi við notkun lyfsins á meðgöngu hafi ekki verið staðfest og því sé notkun Lóritín á meðgöngu er ekki ráðlögð. Á vefnum www.safefetus.com kemur fram að dýrarannsóknir hafi ekki sýnt fram á aukna tíðni fósturgalla en engar rannsóknir hafa verið gerðar á konum.

Livostin augndropa er hins vegar alveg óhætt að nota samkvæmt upplýsingum í Sérlyfjaskránni.

Þú ættir að ræða þetta við heimilislækninn þinn því ef til vill getur hann ávísað öðru lyfi sem er öruggara að nota.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. ágúst 2007.