Spurt og svarað

08. maí 2007

Lyf við frjóofnæmi á meðgöngu

Sæl!

Ég er með mjög mikið frjóofnæmi, svo mikið að flest lyf virka lítið sem ekkert á mig. Ég hef samt tekið inn töflur þegar ég verð alveg frá af einkennum og það hefur slegið aðeins á. Mörg þessarra frjóofnæmislyfja hafa sljóvgandi áhrif á mann, er það þá ekki slæmt að taka þetta inn með barn í maganum. Það hlýtur að verða fyrir sömu áhrifum af lyfinu og ég! Ég er komin núna um 22 vikur og á að eiga í september. Hvað get ég gert? Mér er strax farið að kvíða mjög mikið fyrir sumrinu vegna þessa! Hafið þið heyrt hvort að það sé hættulegt að taka inn jurtalyf frá hómópötum? Eða er það bara eins eða kannski hættulegra fyrir barnið?

Bestu kveðjur.


Sæl og blessuð!

Þú ættir að panta þér tíma hjá heimilislækni til að ræða þetta mál því það er æskilegt að ráðfæra sig við lækni í sambandi við lyfjanotkun á meðgöngu. Það að lyfið sé sljóvgandi fyrir þig þarf ekki endilega að þýða að það hafi slæm áhrif á barnið og að sama skapi geta lyf sem ekki eru sljóvgandi haft óæskileg áhrif á barn í móðurkviði eins og t.d. Íbúfen.

Almennt séð eru náttúrlyf ekki endilega betri en önnur lyf og það þarf að meta vandlega ávinning þess að taka inn lyf til móts við áhættu áður en þau eru tekin inn. Lyf sem hómópatar gefa ættu þó ekki að vera hættuleg fyrir barnið en hómópatar geta þó ráðlagt þér í þessum efnum.

Eins og þú veist örugglega skiptir mestu máli fyrir þig að forðast ofnæmisvaldinn eins og hægt er, en það getur auðvitað verið mjög erfitt.


Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. maí 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.