Lýsi og Omega-3 forte

10.10.2012
Sælar ljósmæður.
Ég er komin 25 vikur og hef verið að taka bæði heilsutvennu, sem er hvort tveggja fjölvítamíntafla og lýsisperla, og síðan Omega-3 Forte sem er án A- og D-vítamína með. Er þetta of mikið, það er að segja bæði lýsið og omega-3 forte? Er kannski bara nóg að taka lýsið og er þá nægjanlegt magn af omega-3 fitusýrum í því? Nú borða ég ekki mikinn fisk, kannski svona einu sinni í viku. Ein spurning til viðbótar. Ég hætti að taka fólínsýru þegar ég var komin mjög stutt þar sem ég var með mikla ógleði og gat ekki hugsað mér að gleypa töflur. Áttaði mig ekki á því að ég hefði átt að reyna að taka þetta lengur á þessum tímapunkti. Ég er hins vegar búin að fara í sónar, bæði 13 vikna og 20 vikna og ekkert óeðlilegt kom þar fram. Er ekki öruggt að allt sem gæti orðið til skaða vegna ónógrar fólínsýrutöku væri komið í ljós í þessum sónarskoðunum? Með þökk fyrir góðan og fróðlegan vef.
Sæl!
Þú ættir ekki að þurfa að hafa áhyggjur af vítamíninntökunni, lýsi er auðugt af omega-3 fitusýrum svo það er alveg nóg að taka bara lýsið. Mikilvægast er þó að borða fjölbreytta og holla fæðu.
Á heimasíðu lýsi, lysi.is er að finna fróðleik um lýsi sem áhugavert er að lesa.
Á fyrstu 12 vikunum er taugakerfi fóstursins að þroskast. Við mælum með að konur taki fólínsýru að minnstakosti fyrstu 12 vikur meðgöngu því það hefur góð áhrif á tagaþroska fóstursins og frumuskiptingu. Einnig getur skipt máli að konan hafi tekið inn fólínsýru fyrir þungun. Magnið af fólínsýru sem mælt er með er 400 míkrógrömm á dag. Ef sónarskoðanir hafa komið vel út getur þú alveg verið róleg, í þeim skoðunum sjást alvarlegustu gallarnir sem geta orðið vegna fólínsýruskorts.
Gangi þér vel og njóttu þess sem eftir er af meðgöngunni.

Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. október 2012