Spurt og svarað

26. september 2007

Lystarleysi, vítamín, Pilates

Góða kvöldið!

Þannig er að ég er kominn 14 vikur á leið og ég hef ekki borðað almennilegan mat í heilan mánuð. Ég hef sama sem enga matarlyst og klígjar við öllu kjöti og grænmeti. Borða nær eingöngu kakómjólk, brauð og ávexti og svo eru dessertar i kvöldmatinn. Ég finn fyrir mikilli svengd á kvöldin en get samt ekki borðað. Get ég bætt upp með vítamínum?

Svo eitt enn, er í lagi að æfa Pilates á meðgöngu?

  

Það er líklegt að þig skorti nú einhver vítamín ef þú borðar ekkert grænmeti og því gæti verið sniðugt hjá þér að taka inn fjölvítamín á meðan þetta lystarleysi stendur yfir. Gættu þess bara að taka ekki inn meira af vítamínum en ráðlagðir dagsskammtar segja til um. Ef þú borðar ekkert kjöt þá gæti þig einnig skort prótein en það er líka hægt að fá prótein úr fiski, ostum, skyri og baunum svo dæmi séu tekin. Kannski er líka spurning um að elda grænmetið á girnilegan hátt, t.d. að gera ofnrétti eða súpur. Það er alltaf betra að fá vítamínin beint úr matnum en það getur þurft að taka inn vítamín tímabundið ef það er ekki raunin.

Það er í góðu lagi að æfa Pilates á meðgöngu en það er gott að nefna það við þjálfarann að þú sért barnshafandi því ef til vill getur þurft að gera einhverjar æfingar öðru vísi.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. september 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.