?Sore No More? krem á meðgöngu

20.01.2009

Hæ!

Nú erum við margar sem þjáumst af vöðvabólgu. Það sem mér finnst virka best er krem sem heitir „Sore No More“. Þetta krem/gel með menthol 3% og camphora 3% sem eru virku efnin. Þetta er selt í apótekum og er kælandi og virkar mjög vel. En ég væri til í að vita hvort megi ekki örugglega nota þetta á meðgöngu? Þetta á að vera mjög náttúrulegt en er ekki örugglega í lagi að nota menthol á meðgöngu?

Með fyrirfram þökk.


Sæl og blessuð!

Náttúrlegt er ekki sama og öruggt!

Þó að þetta sé náttúrlegt þá inniheldur þetta virk efni sem ekki er vitað hvaða áhrif hefur á fóstrið. Það er betra að sleppa því að nota efni sem við ekki vitum hvaða áhrif hafa á fóstrið nema það sé hreinlega lífsnauðsynlegt eða mjög mikilvægt fyrir heilsu móður. Það er sérstaklega varað við notkun kamfóru á meðgöngu í hvaða formi sem er því kamfóra kemst yfir fylgjuna og getur fræðilega séð haft áhrif á fóstrið. Vitað er að kamfóra getur valdið eitrun bæði hjá móður og fóstri. Þegar um er að ræða krem sem borin eru á húðina vitum við ekki hversu mikið af virku efnunum fer inn í blóðrás. Líklega er það ekki mikið en það er algjör óþarfi að taka áhættuna á því að vera að nota slík krem.

Ég finn ekki heimildir varðandi mentól en það er hvergi beint varað við því en heldur ekki mælt með því, líklega vegna þess að ekki er nógu mikið vitað um áhrif þess á móður og fóstur á meðgöngu.

Besta ráð við vöðvabólgu er að huga að vinnustellingum og hreyfa sig reglulega. Kraftganga er t.d. algjör snilld því þá hreyfast hendur og axlir kröftuglega og þannig eykst blóðflæði um þetta viðkvæma svæði. Nudd á axlirnar getur líka hjálpað.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
20. janúar 2009.