Má bera smá ólífuolíu á geirvörturnar?

09.01.2007

Sælar og takk fyrir góðan vef :)

Ég er með frekar þurra húð og eftir sturtu eða böð verða geirvörturnar frekar þurrar, eins og önnur svæði á líkamanum. Má ég ekki alveg bera smá ólífuolíu á þær svo ég flagni nú ekki alveg upp? Ástæða þess að ég spyr er sú að ég hef lesið að maður eigi helst ekki að vera að bera á þær krem né annað á meðgöngunni.

Takk, takk.

Kveðja, M.


Sæl og blessuð M.

Jú, það er allt í lagi fyrir þig að bera á þig örlitla olíu eða krem ef húðin er þurr. Það eru hinar sem eru með eðlilega húð sem ekki eiga að vera að bera neitt á sig. Hins vegar gæti verið gott fyrir þig að reyna að styrkja eiginleika húðarinnar til sjálfsmurningar með því að draga úr sápunotkun eða notkun annarra efna sem hafa áhrif á þessa hæfileika. Það gætu verið sterk efni, þvottaefni, ilmefni ofl.

Með ósk um gott gengi.  

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. janúar 2007.