Spurt og svarað

22. desember 2006

Apríkósur og vallhumall

Sælar og takk fyrir frábæra þjónustu!

Ég er komin 35 vikur á leið og er með tvær spurningar:

  • Ég var frekar lág í járni síðast þegar ég fór í mælingu (104) og ljósmóðirin ráðlagði mér að borða þurrkaðar apríkósur. Hversu mikið á maður að borða af þeim til að fá ráðlagðan dagskammt af járni?
  • Er í lagi að nota náttúrukrem sem er með vallhumal (innihaldslýsing: Jurtafeiti 100%, vallhumall og rósmarínbaðmjólk). Þetta krem hefur alltaf slegið á alla vöðvaverki hjá mér.


Sæl og blessuð! Takk fyrir að leita til okkar!

Ráðlagður dagsskammtur af járni fyrir barnshafandi konur er 15 mg en þar sem þú ert lág í járni þarftu að fá svolítið meira. Oft er mælt með að taka inn 30-60 mg af járni við þessar aðstæður. Í 100 g af þurrkuðum apríkósum eru 6 mg af járni. Það er kannski svolítið einhæft að ætla að reyna að fá dagskammtinn af járni úr apríkósum þannig að þú getur líka aukið neyslu á öðru sem inniheldur mikið járn, t.d. sólblómafræjum, rúsínum, rauðu kjöti, kartöflum, (eggjum), grænu blaðgrænmeti, söl, hnetum og kirsuberjum. Hægt er auka upptöku járns í líkamanum úr fæðutegundum úr jurtaríkinu með því að neyta fæðu sem inniheldur C-vítamín í sömu máltíð.  Hins vegar eru til fæðutegundir sem hamla upptöku járns s.s. sojabaunir, belgjurtir, trefjar, te, kaffi, egg og hnetur.  Af þessu má sjá að egg eru t.d. ekki góður járngjafi því þrátt fyrir að þau innhaldi talsvert magn af járni þá hafa þau einnig hamlandi áhrif á upptöku járns.  Kalk og magnesíum geta truflað upptöku járns og þess vegna ætti ekki að neyta þessara steinefna á sama tíma.  Á þessari forsendur er upptaka járns verri ef það er í fjölvítamíni sem einnig inniheldur kalk og magnesíum.

Ég flétti upp þessum jurtum sem þú nefnir að kremið innihaldi, þ.e. rósmarín (rosemary) og vallhumall (yarrow). Það er talið í lagi að nota rósmarín til að bera á sig en ekki mælt með inntöku. Vallhumall getur virkað örvandi á legið og því ætti að nota hann í hófi á meðgöngu. Þar sem þessar jurtir eru í kremi þá tel ég að það sé í lagi fyrir þig að nota það og gott að þér líður vel af því.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
22. desember 2006.

 

 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.