Magaæfingar á meðgöngu

29.08.2007

Sælar!

Ég er búin að lesa held ég flesta þræði hérna um líkamsrækt á meðgöngu og svörin sem ég hef séð varðandi magaæfingar á meðgöngu hafa verið mjög misjöfn. Ein segir að það sé ekki æskilegt að gera magaæfingar en önnur segir að það sé ekkert sem mæli á móti því. Getur einhvern sagt mér hvort er rétt, þ.e að því gefnu að konan sé hraust og heilbrigð.

  

Þar sem magavöðvarnir teygjast talsvert á meðgöngunni veikjast þeir að sama skapi og því þarf að fara varlega í að gera erfiðar magaæfingar. Það er hins vegar mælt með því að gera léttar magaæfingar því styrkir magavöðvar bæta líkamsstöðuna og styðja við bakið. Algengast er liggja á bakinu þegar magaæfingar eru gerðar en það er ekki æskilegt að æfa í þeirri stöðu eftir u.þ.b. 24 vikna meðgöngu vegna þess að þá getur þungi legsins þrýst á stóru bláæðina í kviðarholi og þannig getur dregið úr blóðflæði. Það er t.d. hægt að gera magaæfingar með því að vera á fjórum fótum; anda frá sér meðan magavöðvar eru spenntir, naflinn er dreginn inn í átt að bakinu og anda að sér um leið og spennan er losuð. Einnig er hægt að gera æfingar með því að liggja á hliðunum og lyfta sér upp í átt að mjöðmunum, á svipaðan hátt og þegar venjulegar magaæfingar eru gerðar.

Munið svo endilega eftir því að gera grindarbotnsæfingarnar líka.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. ágúst 2007.

 Leitarorð: kviðæfingar, líkamsrækt, leikfimi