Spurt og svarað

29. ágúst 2007

Magaæfingar á meðgöngu

Sælar!

Ég er búin að lesa held ég flesta þræði hérna um líkamsrækt á meðgöngu og svörin sem ég hef séð varðandi magaæfingar á meðgöngu hafa verið mjög misjöfn. Ein segir að það sé ekki æskilegt að gera magaæfingar en önnur segir að það sé ekkert sem mæli á móti því. Getur einhvern sagt mér hvort er rétt, þ.e að því gefnu að konan sé hraust og heilbrigð.

  

Þar sem magavöðvarnir teygjast talsvert á meðgöngunni veikjast þeir að sama skapi og því þarf að fara varlega í að gera erfiðar magaæfingar. Það er hins vegar mælt með því að gera léttar magaæfingar því styrkir magavöðvar bæta líkamsstöðuna og styðja við bakið. Algengast er liggja á bakinu þegar magaæfingar eru gerðar en það er ekki æskilegt að æfa í þeirri stöðu eftir u.þ.b. 24 vikna meðgöngu vegna þess að þá getur þungi legsins þrýst á stóru bláæðina í kviðarholi og þannig getur dregið úr blóðflæði. Það er t.d. hægt að gera magaæfingar með því að vera á fjórum fótum; anda frá sér meðan magavöðvar eru spenntir, naflinn er dreginn inn í átt að bakinu og anda að sér um leið og spennan er losuð. Einnig er hægt að gera æfingar með því að liggja á hliðunum og lyfta sér upp í átt að mjöðmunum, á svipaðan hátt og þegar venjulegar magaæfingar eru gerðar.

Munið svo endilega eftir því að gera grindarbotnsæfingarnar líka.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. ágúst 2007.

 Leitarorð: kviðæfingar, líkamsrækt, leikfimi

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.