Spurt og svarað

14. janúar 2013

Magavandamál á meðgöngu

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef!
Ég vil byrja með smá forsögu: Í dag er ég gengin 6v+4d og hef liggur við frá festingu eggsins haft talsvert verri einkenni ristilkrampa. Þetta hefur verið vandamál frá unglingsárum. Að jöfnu lýsir þetta sér þannig að ég fæ harðlífi í nokkra daga og svo mikla magaverki sem leiða til niðurgangs. Eins ef ég er undir álagi eða borða vissan mat, þá fæ krampa sem er frekar sársaukafullur og er í nokkra klukkutíma í senn. Verð ég þá iðulega þanin og fæ vindgang. Ég hef líka haft tilhneigingar til magabólgu og verið svo slæm eitt sinn að ég var lögð inn með vökva í æð. Það sem er að plaga mig mest núna er gífurlegt harðlífi ásamt því sem ég held að sé bakflæði. Ég minnist þess ekki að hafa verið svo slæm á síðustu meðgöngu. Í dag þá hef ég haft mikla verki efst í kviðnum, verið með öllu lystarlaus og haft ógleði. Magaverkirnir og ógleðin löguðust umtalsvert við að ég kastaði slatta upp en ég er enn slöpp og lystarlaus og með kviðverki. Ég náði að þræla ofan í mig Husk og slatta af vatni og virðist það hafa losað aðeins um. Ég er þó enn mjög lystarlaus, með kviðverki og óglatt (hef annars algjörlega sloppið við morgunógleðina). Ég hef ekki verið m. hita, en ég hef verið með væga köldu, þróttlítil og með beinverki í baki. Mín spurning er: Getur slæmt harðlífi lýst sér svona eða hef ég náð mér í pest? Er þetta e-ð sem þarf að hafa áhyggjur af? Spurning 2: Getur bakflæði lýst sér sem hálsbólga? Hef haft þetta látlaust í ca. 2 vikur og eftir að ég eitt sinn fann sýruna gúlpast upp í háls, þá grunaði mig að bakflæði væri sökudólgurinn. Þetta er verra eftir sterkan mat og og súra drykki og eins þegar ég hef legið lengi. Það eina sem heldur þessu niðri eru brjóstsviðatöflur, en mér finnst þær vera skammvinn sæla og einkennin koma fljótt aftur. Ég er orðin rosalega þreytt á þessu. Afsakaðu langlokuna.
Með von um svör, XxXSæl
Til hamingju með þungunina, leiðinlegt að heyra um báglega líðan þína.
Þar sem þú þekkir vandamálið vel veist þú að það er mikilvægt fyrir þig að passa vel uppá þig, borða holla og trefjaríka fæðu, drekka vel, ekki láta líða marga klukkutíma á milli máltíða og forðast streitu.
Hvort þú ert með slæmt harðlífi eða pest er erfitt að segja til um, lýsingin getur átt við bæði. Pestin ætti að líða hjá á nokkrum dögum en harðlífið þarf að leysa .

Harðlífi getur verið einn af fylgikvillum meðgöngu, ef það er til staðar fyrir meðgöngu getur það versnað. Hvort sem þú notar Husk, Sorbitol eða önnur hægðalyf finnst mér líklegt að þú þurfir að nota þau jafnt og þétt út meðgönguna til að fyrirbyggja að þú stíflist og komist í vítahring með tilheyrandi vanlíðan. Ef Husk og Sorbitol duga ekki eru til önnur hægðalyf sem þú ætti að nota í samráði við lækni eða ljósmóður í mæðraverndinni.

Varðandi bakflæði þá getur það lýst sér sem pirringur í hálsi og sífelld þörf til að ræskja sig. Það er vel þekkt að sterkur matur og ýmsar matvörur eins og laukur, hvítlaukur, tómmatar og fleira valda brjóstsviða hjá mörgum. Hjá sumum dugar að forðast slík matvæli en oft eru lyf það eina sem lagar brjóstsviðann en þó alltaf bara tímabundið og því oft nauðsynlegt að taka magasýrulækkandi lyf alla meðgönguna.

Mér finnst líklegt að þú hafir verið í eftirliti hjá meltingarsérfræðingi að einhverju leiti vegna ristilkrampans, ef svo er ættir þú að fá tíma í hjá honum/henni. Ef ekki ráðlegg ég þér að fá tíma hjá heimilislækni og fara í gengnum málin með henni/honum. Ef þú ert ekki búin að hafa samband við heilsugæslu til að fá tíma í mæðravernd er upplagt að drífa í því.
Gangi þér vel.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
14. janúar 2013

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.