Spurt og svarað

01. apríl 2011

Mat á meðgöngulengd í snemmsónar

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Nú langar mig til þess að forvitnast um útreikning meðgöngulengdar.Fyrir rúmri viku síðan fékk ég blússandi jákvætt þungunarpróf. Samkvæmt útreikningum mínum úr meðgöngureikninum á síðunni ykkar ætti ég að vera komin 6 vikur og 2 daga. Þá miðaði ég við að fyrsti dagur síðustu blæðinga var 5. febrúar sl. og hringurinn minn er ca. 32 dagar. Í morgun fór ég svo í snemmsónar hjá kvensjúkdómalækni. Hann sagði mér að ég væri í mesta lagi gengin 5 vikur og 3 daga. Í sónarnum sást 1,8 mm fóstur með flottan blikkandi hjartslátt og sagði hann okkur jafnframt að getnaður hefði orðið 27.-28. febrúar – sem getur vel passað :)

Það sem mig langaði til þess að spyrja um er hvernig meðgöngulengd er metin í snemmsónar. Er þar farið eftir stærð fóstursins og er það nákvæmari mæling en hin? Og eru engin skekkjumörk þegar aldur fósturs er metinn á þennan hátt? Loks, er þá til einhvers konar tafla sem sýnir hver stærð fósturs er við hvern dag meðgöngu?

Með kærri kveðju, Forvitin.


Sæl!

Meðgöngulengd er reiknuð út frá lengd fóstur frá höfði og niður á rass (crown rump length) á fyrstu 12 vikunum, skekkjumörk eru +/- 5 dagar. Meðgöngulengdin er gefin upp í vikum og er alltaf gefin upp 2 vikum meira en getnaður segir til um. Þannig að þegar læknirinn segir 5 vikur + 2 dagar, eru 3 vikur + 2 dagar frá getnaði.

Kveðja og gangi þér vel,
 
María Hreinsdóttir,
ljósmóðir fósturgreiningardeild LSH,
1. apríl 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.