Mega samdrættir ekki vera fleiri en 4 á klukkustund?

08.05.2007

Góðan daginn og takk fyrir fróðlegan og nauðsynlegan vef! 

Mig langar að forvitnast hvaðan viðmiðið kemur um að samdrættir ættu ekki að vera fleiri en 4 á klukkustund? Ég hef ekkert fundið út af hverju það er. Ég er komin 37 vikur og 3 daga og frá því gærkvöldi hefur kúlan nánast verið hörð. Vaknaði upp við væga verki í nótt en þeir hjöðnuðu svo það er engin reglubundinn taktur. Kúlan er ennþá hörð 12 tímum síðar en hreyfingar eru enn í lagi held ég. Nú langar mig að forvitnast um þessa 4 samdrætti. Ég tek það fram að ég er undir miklu álagi þessa dagana í prófum og geri mér grein fyrir að það eigi örugglega einhvern þátt í þessu.

Með kærri kveðju.

 


 

Sæl og blessuð og takk fyrir að spyrja um þetta!

Þú ert m.a. að vísa í það sem við höfum skrifað hér á síðuna og ég skil vel að þú skulir velta þessu fyrir þér.

„Samdrættir lýsa sér þannig að kúlan verður hörð án þess að konan verði vör við verki.  Sumar konur finna aldrei fyrir þessum samdráttum meðan aðrar finna fyrir þeim allt frá 20. viku. Samdrættir aukast yfirleitt eftir því sem líður á meðgönguna og flestar konur finna fyrir samdráttum á síðustu vikum meðgöngunnar.  Eðlilegt er að finna fyrir samdráttum en þeir ættu þó ekki að vera fleiri en fjórir á klukkutíma.“ 

Þessir 4 samdrættir á klukkustund er bara viðmið sem hefur verið notað, sérstaklega í þeim tilgangi að gefa skýrar leiðbeiningar um hvenær hætta getur verið á fyrirburafæðingu. T.d. ef kona finnur fyrir sex samdráttum á klukkustund við 30 vikna meðgöngu þá geta það verið skilaboð frá líkamanum um að slaka á. Tíðir verkjalausir samdrættir geta verið undanfari fæðingar og þess vegna ber að taka það alvarlega þegar meðöngulengd er ekki orðin fullar 37 vikur. Þegar meðgöngulengdin er orðin 37 vikur þá er ekki lengur um fyrirburafæðingu að ræða og þá er allt í lagi þó að þeir séu fleiri en fjórir á klukkustund. Það er þó ekki eðlilegt að finna fyrir stöðugri spennu í leginu, það á að slakna á því á milli. Það er mikilvægt að fylgjast með hreyfingum og til gefa þér fleiri tölur þá höfum við gefið þær leiðbeiningar að barn eigi að hreyfi sig a.m.k. 10 sinnum á tveimur klukkustundum.

Vona að þetta skýri málið.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. maí 2007.