Meindýraeyðir

15.10.2012

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef.
Ég var að vonast til að þið gætuð hjálpað mér, þannig er mál með vexti að silfurskottur hafa verið að sjást heima hjá mér og betri helmingurinn minn með pöddufóbíu á háu stigi, þannig að það er annað hvort að skipta út pöddunum eða manninum. Vildi helst halda manninum, en mér er hins vegar meinilla við að fá meindýraeyði til að eitra alla íbúðina á óléttunni. Er komin 24 vikur og vildi frá ráð hjá ykkur hvort þið haldið að það sé með öllu skaðlaust fyrir mig og bumbubúann minn litla að vera í íbúð þer sem hefur verið eitrað fyrir þessum óboðnu gestum.
TakkSæl!

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég finn um meindýraeyðingu innandyra er óhætt að fara inn í íbúðina 4 klst. eftir að úðað hefur verið en eftir 8 klst. ef þú ert barnshafandi eða um ungabarn að ræða. Þú getur haft samband við meindýraeyði sem leiðbeinir þér um undirbúning á íbúðinni áður en hægt er að eitra.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. október 2012