Meira um aluminium chlorie í svitalyktareyðum

26.08.2008

Komiði sælar!

Ég var að lesa hjá ykkur fyrirspurn út af Maxim svitastoppara. Ég hef verið að nota svona kristal sem inniheldur aluminium chloride alla meðgönguna en ég er á 12. viku. Ekkert stóð á umbúðum um að ekki mætti nota þetta á meðgöngu. Nú hef ég áhyggjur að ég hafi valdið barninu skaða? Getið þið sagt mér eitthvað meira um það í hverju áhættan felst?

Með kærum kveðjum.


Sæl!

Aluminium chloride (álklórið) er víða í umhverfi okkar. Það er í mörgum tegundum matvæla, er í ákveðnum tegundum af pottum sem notaðir eru við eldamennsku svo eitthvað sé nefnt. Við innbyrðum það með matvælum, drykk og við innöndun. Það er í kremum sem við berum á húðina o.s.frv. Það er flókið að forðast aluminium chloride algjörlega.

Ekki hefur verið sýnt fram á hversu mikið magn af aluminium chloride þarf til þess að það hafi eitrunaráhrif á móður og barn. Þó er mælt með að konur forðist notkun efna sem innihalda mikið magn þess eins og fyrrnefndur svitastoppari virðist innihalda. Afleiðingar stöðugrar notkunar á miklu innihaldi efnisins er áhrif á þroska taugakerfis fósturs og getur haft örvandi áhrif á þróun ákveðinna sjúkdóma.

Þrátt fyrir að ekki sé mælt með notkun svitastoppara sem inniheldur aluminium chloride, á meðgöngu eða þegar konur eru með barn á brjósti, þá hafa rannsóknir ekki sýnt fram á skaðsemi þessara efna.

Því má leiða líkur á að þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur þó þú hafir notað vöru sem inniheldur þetta efni á meðgöngunni. Ég tel þó ráðlagt að þú hættir að nota hana á meðan þú ert barnshafandi og með barn á brjósti ef þú ert í einhverjum vafa.

Með kærri kveðju,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. ágúst 2008.