Spurt og svarað

27. febrúar 2012

Meira um erlenda osta

Sælar og takk fyrir frábæra síðu! Hún hefur reynst mér ákaflega vel :)

Ég var að skoða fyrirspurnin hjá ykkur í dag og rakst á eina um Grana Padano ost. Ljósmóðirin sem svarar segist búast við því að osturinn sé í lagi, hann sé samt framleiddur úr ógerilsneyddri mjólk. Ég vildi bara benda ykkur á að það er óheimilt af flytja inn ógerilsneyddar mjólkurvörur til Íslands, til varnar listeríu, salmonellu og öðrum ófögnuði. Þannig að kaupi maður erlendan ost, hvernig ost sem er, í ostabúð á íslandi er hann gerilsneyddur og í góðu lagi fyrir okkur óléttu konurnar. Jey! Þetta benti starfsmaður ostabúðarinnar á Bitruhálsi mér á þegar ég var að versla við hana kasólétt og vildi bara kaupa íslenska osta. Mér til mikillar ánægju, þá labbaði ég út með uppáhaldið mitt, Primadonna.

Vona að þetta geti hjálpað einhverjum sem er í vafa með erlendu ostana hér heima :)


Sæl og blessuð og takk fyrir þessa ábendingu!

Það sem ég á við með því að segja að ég búist við að Grano Padano osturinn sé í lagi er að samkvæmt þessari heimild sem ég fann er sagt öruggt að borða Parmesan ost á meðgöngu. Og þar sem Grano Padano osturinn er í sama flokki og Parmesan, þ.e. harður ostur unnin úr ógerilsneyddri mjólk þá dró ég þá ályktun að það sama gilti um hann.

Það er rétt að það er óheimilt að flytja inn ógerilsneyddar mjólkurvörur en svo virðast vera einhverjar undanþágur á því. Ég hringdi í tvær ostabúðir áðan og fékk þær upplýsingar að þar fást ógerilsneyddir ostar. Ég komst líka að því að þar starfar fólk sem veit allt um osta og getur gefið góð ráð þannig að það er um að gera að leita ráða hjá þeim. Í annarri búðinni sem ég hringdi í fékk ég það staðfest að
það er óhætt að borða Parmesan og Grano Padano á meðgöngu þó að að þeir séu alltaf unnir úr ógerilsneyddri mjólk. Það hefur bæði með það að gera að þeir eru harðir ostar og einnig skiptir þroskunartíminn miklu máli en hann er margir mánuðir hjá þessum tegundum. Langur þroskunartími drepur hættulegar bakteríur í svona ostum og í þessu sambandi er oft talað um 60 daga regluna.

Ég vona að þetta skýri málin enn frekar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
27. febrúar 2012.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.