Meira um hlaup á meðgöngu

28.06.2009

Góðan dag!

Ég vil byrja á að þakka fyrir mjög góðan og upplýsandi vef sem hefur nýst mér vel. Mig langar til þess að senda ykkur fyrirspurn varðandi hlaup á meðgöngu. Þannig er mál með vexti að ég er gengin rúmlega 18 vikur af mínu öðru barni og er ennþá að hlaupa tvisvar til þrisvar sinnum í viku.
Fyrir meðgöngu var ég að hlaupa jafnoft en þá hljóp ég bæði lengra í hvert skipti og hraðar. Ég er með góða heilsu ef frá er talin þverrandi ógleði. Mér líður aldrei illa þegar ég er að hlaupa þó það sé klárlega öðruvísi og helstu óþægindin voru fyrstu vikurnar þegar mér fannst eins og ég þyrfti stöðugt að pissa, en það er búið núna. Það sem veldur mér hins vegar vangaveltum nú er að mér finnst eins og legið sé mjög hart þegar ég er búin að hlaupa, jafnvel eins og það séu samdrættir, ég spyr því er ég nokkuð að valda barninu óþægindum eða setja það í nokkra hættu? Ég tek það fram að ég er ekki að ofbjóða mér og ég hugsa mikið um að stoðkerfið þoli það álag sem hlaupunum fylgja, ég hef eins og áður sagði bæði dregið úr hraða og lengd (úr u.þ.b. 20 km á viku í 10-15 km og hraði úr 12 í 10 km/klst ef það skiptir einhverju máli. Það kom frekar illa við mig fyrir stuttu þegar þjálfari í stöðinni vatt sér upp að mér og var með athugasemdir um hvernig ég ætti að æfa í þessu ástandi og ósjálfrátt fór ég í vörn og þá fékk ég að heyra „já, ég er nú bara að hugsa um barnið þitt“. Stundum finnst mér eins og ófrískar konur verði hálfgerð almenningseign!

Ljósmóðir mín hvatti mig í upphafi til þess að halda uppteknum hætti eins lengi og ég treysti mér til og ég hef haldið hingað til að öll hreyfing væri til hins betra. Ég er hins vegar örlítið óöruggari núna eftir þessar aðfinnslur og með samdrætti í leginu að æfingu lokinni. Afsakið langlokuna en það er svo langt þar til ég fer í mæðraskoðun og til þess að fá frekari svör.

Með fyrirfram þökk.Sæl og blessuð!

Eins og þú veist þá er í góðu lagi að hlaupa á meðgöngu ef heilsan er góð. Það er eðlilegt að markmiðin breytist eins og þú segir þá ertu að hlaupa styttri vegalengdir á minni hraða. Ef fyrri markmið voru að hlaupa hraðar, hlaupa lengra, taka þátt í keppni eða jafnvel að grennast þá ættu þau að vera önnur núna á meðgöngunni. Á meðgöngu eiga hlaupin fyrst og fremst að snúast um að halda sér í eins góðu formi og mögulegt er miðað við aðstæður, veita vellíðan, slökun og útiveru (ef hlaupið er úti). Margar rannsóknir hafa sýnt að konur sem æfa á meðgöngunni finna fyrir færri líkamlegum og andlegum vandamálum, horfa með jákvæðari augum á meðgönguna, eru með sterkari sjálfsímynd, eru betur undirbúnar fyrir fæðinguna, þurfa síður að fara í keisara og ná sér fyrr eftir fæðinguna.

Eitt af því mikilvægasta við alla þjálfun á meðgöngu er að hlusta á líkamann! Ef þú finnur fyrir sterkum samdráttum í leginu þegar þú hleypur eða eftir hlaupin gætu það verið skilaboð um að hægja aðeins á - kannski að fara styttra eða hægar.

Nokkur önnur atriði sem mætti hafa í huga við hlaup á meðgöngu:

  • Vera í góðum skóm og góðum brjóstahaldara sem styður vel við.
  • Drekka vel af vökva.
  • Klæða sig þannig að auðvelt sé að fækka fötum því það er ekki gott að vera of heitt.
  • Ef til vill að hlaupa styttri hringi og kannski að vera nær heimilinu ef ofþreyta gerir vart við sig - svo auðvelt sé að ganga heim.
  • Stuðningsbelti getur verið gagnlegt þegar kúlan fer að stækka.

Vona að þú getir haldið áfram að hlaupa.

Hlaupakveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.

Heimild: Scott, D. (2000). Complete Book of Women´s Running. Rodale.