Meira um Sushi á meðgöngu

28.02.2010

Hæ ljosmodir.is!

Ég er farin að snúast í hringi varðandi allt það sem má og ekki má. Ég bý í Danmörku og hef verið að lesa mér til um mataræði á meðgöngu. Ég sé mikið af mótsögnum í íslenskum gögnum og dönskum. Hér má t.d. nefna Sushi. Á íslandi er talað um listeríu og aðrar bakteríur sem geta verið í hráum fisk og þess vegna er ekki mælt með sushi á meðgöngu. Í Danmörku er aftur á móti talað um að óhætt sé að borða sushi vegna þess að þeir sem selja sushi verða að frysta fiskinn 24 tíma fyrir notkun við -20 gráður og þá á að vera óhætt að borða hann. Það eina sem er bent á er kvikasilfur í t.d. túnfisk.

Hvað er rétt?

Bestu kveðjur frá Danmörku:-)Sæl og blessuð!

Við leituðum til Helgu Margrétar Pálsdóttur sem er sérfræðingur á matvælaöryggis- og neytendamálasvið Matvælastofnunar og hún sendi okkur þetta svar:


„Varðandi ráðlegginar á Íslandi þá er barnshafandi konum ráðlagt að halda sér frá sushi og öllu öðru hrámeti vegna listeríu hættu. Listería leynist víða, s.s. í vatni og jarðvegi og geta mörg matvæli borið listeríu. Því er mikilvægt að þvo matvæli, s.s. grænmeti og ávexti fyrir neyslu, og elda allan tilbúinn mat til að drepa listeríuna ef hún er til staðar en listería drepst við hitun. Listería drepst EKKI við frystingu! Listería er baktería og leggst í dvala, ef svo má segja, við frystingu en „lifnar aftur“ við hitun (getur fjölgað sér á hitastigsbilinu 1°C - 45°C).  Ýmis sníkjudýr, drepast við frystingu og þaðan gæti misskilningurinn verið kominn.

Hvað varðar ráðleggingar í Danmörku veit ég ekki hver ástæðan er fyrir því að segja að sushi sé öruggt til neyslu fyrir óléttar konur. Kannski er ástæðan sú að þeir telja listeríumagnið vera í svo litlu magni að það eigi ekki að hafa áhrif á þann sem neytir þess þar sem matvælin eru í kæli og listería á ekki að geta fjölgað sér. Það ber hins vegar að benda á að einhverjir bitar gætu innihaldið listeríu, og það í miklu magni sem gætu valdið skaða. Svo ekki sé talað um marga sushi staði þar sem diskarnir fara kannski marga hringi á færibandi áður en þeir eru borðaðir við hitastig sem er nálægt kjöraðstæðum listeríu til fjölgunar.

Ég ráðlegg því öllum óléttum konum að halda sig frá sushi og öllum öðrum hráum mat.“

Þar höfum við það!

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. febrúar 2010.


Til frekari fróðleiks er hér er slóð inn á fræðsluefni á vef Matvælastofnunar
http://www.mast.is/flytileidir/matvaeli/matarsykingar/listeriamonocytogenes