Metasys á meðgöngu

17.12.2008

Sælar!

Ég ætlaði að spurja um Grænt te í töflum, svokallað Metasys. Kærastan mín tók þetta fyrstu 7 vikurnar áður en hún vissi að hún væri ólétt. Þetta er að sjálfsögðu mjög örvandi en getur þetta hafa skaðað fóstrið?


Hæ, hæ!

Metasys innheldur 100% þykkni (extract) af grænu tei og mér finnst afar ólíklegt að það geti haft fósturskemmandi áhrif en þó er ekki mælt með notkun Metasys á meðgöngu. Grænt te inniheldur koffín svo það hlýtur að vera talsvert mikið af koffíni í svona hylkjum en rannsóknir benda til þess að mikil neysla á koffíni auki líkur á fósturlátum.

Metasys flokkast líklega sem náttúrulyf og það þarf alltaf að fara varlega í að taka inn lyf á meðgöngu, líka náttúrulyf. Mannslíkaminn er mjög fullkomin en að sama skapi flókinn og því geta efni sem tekin eru inn haft jákvæð áhrif á vissa líkamsstarfssemi en neikvæð áhrif á aðra.

Það er allt í lagi að drekka grænt te í hófi á meðgöngu.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
17. desember 2008.