Spurt og svarað

24. júní 2010

Meðganga eftir hjáveituaðgerð

Góðan daginn!

Hvaða ráðleggingar gefið þið konum sem hafa farið í hjáveituaðgerð hvað varðar næringu og vítamín á meðgöngu. Það eru um 2 ár síðan aðgerðin var gerð, vítamínbúskapurinn var góður síðast þegar ég fór í blóðprufu. Hins vegar er ráðlagt að taka meira vítamín á dag ( c.a. 10 lýsistöflur á dag, 5 B12 töflur, eina víta plús og eina víta mínus töflu) heldur en mér sýnist að ófrískum konum sé almennt ráðlagt að taka.

Ég á eftir að hitta heimilislækni/ljósmóður.


Sæl og blessuð og til hamingju með þungunina!

Það sem þarf helst að fylgjast með á meðgöngu eftir hjáveituaðgerð er vítamínbúskapur líkamans og að þú sért að fá nægilegt magn næringarefna, próteina, fitu og kolvetna. Það er mjög gott að staða vítamínanna hafi verið góð hjá þér í síðasta eftirliti en ekki kemur fram hversu langt er síðan það var. Ég myndi ráðleggja þér að hafa samband við göngudeild megrunaraðgerða á Landspítalanum (þar sem þú ert væntanlega í eftirliti) og ræða við hjúkrunarfræðingana þar um hvort þörf sé á annarri blóðprufu. Einnig getur þú fengið viðtal við næringarráðgjafa þar sem getur ráðlagt þér sérstaklega varðandi mataræðið og vítamíninntektina á meðgöngunni. Konum sem farið hafa í hjáveituaðgerð er ráðlagt að vera í mæðravernd í áhættumæðravernd Landspítalans og þar getur þú fengið tíma í fyrstu mæðraskoðun við u.þ.b. 12 vikur og fyrr ef ástæða er til. Hvað varðar inntekt vítamína á meðgöngunni eru hér ráðleggingar sem fengnar eru frá næringarráðgjafa göngudeildar megrunaraðgerða (Svövu Engilbertsdóttur) og gott er fyrir þig að renna yfir:

  • Ein tafla af Pregnacare fjölvítamíni sem sérstaklega er ætlað þunguðum konum.
  • Ein tafla af sterku B12 vítamíni (100 míkrógrömm) sem einnig inniheldur B6 vítamín (5 milligrömm) og fólínsýru (100 míkrógrömm).
  • Barnaskeið af krakka- eða þorskalýsi eða þrjár þorskalýsisperlur tvisvar á dag.
  • Tvær töflur af kalsíum sítrati (600 mg) og ef til vill meira ef ekki eru borðaðar mjólkurvörur.
  • Hafi járnbirgðir verið góðar fyrir meðgöngu er ráðlagt að byrja að taka 20 mg af járni daglega seinni hluta meðgöngu. Sé járnbúskapur ekki góður getur verið þörf fyrir sterkari töflur, jafnvel 100 mg á dag.

Hvað varðar mataræði skiptir máli að borða fjölbreytta og holla fæðu og gæta sérstaklega að nægilegri neyslu próteina.

Með kveðju og ósk um velgengni á meðgöngunni,

María Karlsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
24. júní 2010.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.