Meðganga og spítalaheimsóknir

20.01.2015

Sæl og takk fyrir síðuna, ég hef lært svo mikið hjá ykkur :-) Ég er bara rétt 5 vikur ólétt og mjög ánægð, en svolítið stressuð samt því ég missti fóstur komin 7 vikur í nóvember 2014. Vonandi gengur allt vel í þetta sinn. Ég er tónlistarkona og er búin að plana að taka þátt í tónlistarheimsóknum á Landspítalanum. Er þetta allt í lagi? Eru sumar deildir betri en aðrar? Mig langar að geta tekið þátt en ég vil alls ekki gera neitt sem gæti verið hættulegt fyrir barnið mitt. Takk fyrir svarið :-)Sæl og blessuð og til hamingju, þér er alveg óhætt að fara inn á spítalann og á allar deildir. Það er gott að venja sig á að þvo sér vel um hendurnar til að verjast smiti ekki bara eftir heimsóknir inn á spítala heldur almennt, sérstaklega á þessum árstíma þegar pestir eru í hámarki í samfélaginu. Gangi þér vel.

20.jan.2015
Áslaug Valsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur