Spurt og svarað

19. október 2007

Meðgöngukláði

Sælar

Ég er með fyrirspurn um meðgöngukláða. þannig er með mál og vexti að ég er komin 18 vikur og öll útsteypt ( fyrir utan andlit) í útbrotum með tilheyrandi kláða og þetta er að gera útaf við mig. Hef verið með þetta núna í 3 vikur og líst ekki á að vera með þetta 22 vikur í viðbót. Þetta er verst á kvöldin og nóttinni. Ég var sett á tavegyl og sterakrem en er ekki að virka sem skyldi. Hvers vegna kemur þetta og er möguleiki að þetta hverfi á síðari hlutanum?

Ég hef verið að skanna netið og lítið til á íslensku um þetta en eitthvað aðeins á erlendum síðun og þá undir skammstöfuninni P U P P.

Endilega fræðið mig um þetta leiðinamál.

Með fyrirfram þökk

ÞG


Komdu sæl ÞG

Kláði getur komið á meðgöngu vegna stækkandi kúlu og hormónaáhrifa og er þá venjulega frekar bundinn við kúluna og kannski fætur.  Oft líður konunni betur ef hún er í víðum fötum úr bómull eða a.m.k. ekki úr gerfiefnum, ber á sig krem, fer í "kalda" sturtu, hefur opna glugga til að verða ekki of heitt, hefur létta ábreiðu yfir sér á nóttunni í stað heitrar sængur o.s.frv.  Gott er að klippa neglur til að forðast að klóra sig til blóðs því það getur aukið á kláðann. 

Hinsvegar er það til að meðgöngukláði komi vegna brenglunar á lifrarstarfsemi og þá er kláðinn oft útbreiddari og ekkert virðist virka á hann.  Þá eru oft teknar blóðprufur til að kanna lifrarstatusinn og ef þarf er konan sett á lyf.  Þessu fylgja oftast ekki útbrot.  Ef kláðinn er vegna þess að lifrin starfar ekki rétt lagast þetta oft með lyfjum og konunni líður betur en ástandið lagast í raun ekki fyrr en eftir fæðinguna.  Það er algengara að svona kláði byrji seint á meðgöngunni frekar en svona snemma. 

Þú talar ekkert um hvort búið er að taka þessar blóðprufur en ef ekki þá er ástæða fyrir þig að ræða það við ljósmóðurina þína og lækni hvort þeim finnist ekki ástæða til að gera þær.

Vona að þetta svari spurningunni, gangi þér vel.

Rannvieg B. Ragnarsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur. 19. október 2007.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.