Meðgönguleikfimi og grindarverkir

29.07.2008

Góðan daginn.

Ég er komin 24 vikur á leið og hef stundar markvisst líkamsrækt til c.a 18 viku, tók sumarfrí og síðan þá hef ég snarversnað í grindinni og sérstaklega lífbeininu, ég er ágæt til hádegis en svo uppúr hádegi er ég orðin ómöguleg af óþægindum. Ég er búin að skrá mig í meðgönguleikfimi, en er að velta fyrir mér hvort það gæti gert illt verra. Þetta eru dýr námskeið og þess vegna er ég óviss. Ég hef þyngst um c.a 8 kíló hingað til og mest hefur komið síðustu 4 vikurnar. Ég er svo hrædd um að þyngjast of mikið ef ég hreyfi mig lítið sem ekki neitt og svo finn ég bjúg setjast frekar hratt á mig þessa dagana, en finnst ég vera að borða bara það sama og áður. Hafið þið einhverjar ráðleggingar fyrir mig. Ég á tvö önnur börn þannig að það eru engin rólegheit á heimilinu og vinn 100% vinnu ennþá.

Bestu kveðjur og takk fyrir frábæran vef.


Góðan dag

Það er kannski ekki skynsamlegt að fjárfesta í dýru líkamsræktarkorti ef þú ert orðin slæm í grindinni.  Grindarverkir eiga það til að versna við álag og þreytu.  Þú þarft að passa að hvíla þig vel, sofa með púða milli hnjánna og fá þér snúningslak.  Passa að taka ekkert þungt upp og krossleggja ekki fæturnar.  Hugaðu að líkamsstöðunni og gott er að breyta um stellingar reglulega, t.d. ekki sitja mjög lengi í einu.  Farðu í göngutúra eða sund og syntu þá skriðsund en ekki bringusund, og sjáðu til hvort þetta lagast eitthvað eða þú getur haldið þessu niðri.  Meðgöngusund hjá sjúkraþjálfurum hefur líka gagnast mörgum konum með grindarverki.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. júlí 2008.