Meðgöngulengd

03.01.2014
Hæ hæ
Ég var að velta fyrir mér hvers vegna það er talað um að meðganga sé 40-42 vikur en samt er alltaf sagt að konur gangi með börnin í níu mánuði það eru 36 vikur og þá eru lungun ekki einu sinni tilbúin? þetta er frábær síða sem er búin að hjálpa mér heilan helling.
Sæl
Það er ekki nema von að þér finnist þetta ruglandi. Meðgöngulengd er reiknuð út frá fyrsta degi síðustu blæðinga þannig að tíminn frá því blæðingar byrja og þar til egglos verður er tekinn inn í reikninginn. Eðlileg meðgöngulengd er 38 - 42 vikur frá fyrsta degi síðustu blæðinga en í mæðravernd tala ljósmæður og læknar um meðgöngulengd í vikum og væntanlegan fæðingardag við 40 vikur sem er í raun 38 vikur frá getnaði. Varðandi mánuðina þá er einföld skýring á þessu, mánuður er ekki bara 4 vikur heldur 4 vikur og 2-3 dagar fyrir utan febrúar sem er sléttar 4 vikur. Segjum sem svo að fyrsti dagur blæðinga sé 1. janúar 2014, 40 vikur eru þá 8. október 2014 og er þá meðgangan 9 mánuðir og 8 dagar. Ef við miðum við 9 mánuði væri meðgöngulengdin í vikum 38 vikur og 6 dagar sem telst eðlileg meðgöngulengd.


Með bestu kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. janúar 2014