Spurt og svarað

04. mars 2008

Meðgöngulengd?

Takk fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að mikill munur er á meðgöngulengd hjá mér eftir því hvort miðað er við fyrsta dag síðustu blæðinga og sónar. Ég fór í sónar hjá kvensjúkdómalækninum mínum sem þá mat að ég væri gengin með á 15 viku og fann út að þá væri áætlaður fæðngardagur í kringum 10. mars, fór ég því ekki í 12 vikna sónar. Í 20 vikna sónar var áætluðum fæðingardegi flýtt um 2 daga. Samkvæmt þessu hafa síðustu blæðingar verið afbrigðilegar þó mig reki ekki minni til þess því annars væri munurinn mjög mikill þ.e.fæðingardagurinn ætti að vera í kringum 23. mars. Mælingar í mæðraskoðun eru þó frekar í takt við það sem sónar segir en í síðustu viku (þá 38 viku) var lengd frá legbrún 40 sm. Þar sem ég þarf að fara suður til að fæða vekur þetta hjá mér spurningar um hvaða dagsetningu ég ætti að miða við. Barnið hefur ekki skorðað sig, mér skilst reyndar að það sé ekki óalgengt með fjölbyrjur (4. meðganga) en höfuðið snýr niður. Hreyfingar eru öflugar. Ég fæ samdrætti dag hvern og stundum leiða þeir út í bak og eru þá harðari.

Annað sem ég hef spurnir um og finn ekki hér á síðunni er að ég fæ sára stingi í leghálsinn - nú dag hvern. Læknir sem sér um skoðunina hér taldi það vera hugsanlega samgróninga sem tæki í - eða það togaði í lífhimnuna.  Þetta er mjög vont stundum en stendur ekki lengi yfir í hvert sinn. Ég hef ekki áhyggjur af þessu en þetta hefur ekki gerst áður á meðgöngu hjá mér og ég vil endilega vita hverju sætir.

Með von um skjót svör. Þetta er þriðja tilraun! :-)

 

Komdu sæl

Það er miðað við dagsetningu sem kemur úr 20 vikna sónarnum þegar við tölum um meðgöngulengd og farið eftir henni ef þarf að gangsetja konur við 42 vikur vegna meðgöngulengdar.  Það er rétt að börn skorða sig oft ekki fyrr en í fæðingunni þegar um fjölbyrjur er að ræða.

Stingir í leghálsi eru algegnir síðustu dagana og vikurnar fyrir fæðingu.  Þeir fylgja oft samdráttum sem eru gjarnan meiri og sterkari en áður.  Þrýstingur frá kollinum getur aukið á þessa stingi sem eru sennilega frá leghálsinum - líkt og túrverkir.   Því miður hef ég samt ekki nákvæma skýringu á því sem gerist þegar konan finnur þessa stingi.

Vona að þetta svari spurningunni.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
4. mars 2008.
 


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.