Spurt og svarað

29. desember 2007

Meðgöngusund, meðgöngujóga, hlaup

Góðan daginn og takk fyrir frábæran vef!

Ég er komin 13 vikur á leið og langar til að hreyfa mig eitthvað og styrkja. Ég var ekki í neitt sérstöku formi þegar ég varð þunguð og tel því ekki skynsamlegt að fara út að hlaupa, sem ég gerði einstaka sinnum áður, eða fara í venjulega leikfimi. Ég hef verið að velta fyrir mér að fara í meðgöngusund, eða meðgöngujóga og langar að forvitnast um hvenær mælt sé með því að byrja í slíkri leikfimi. Er þetta eingöngu fyrir konur sem eru komnar langt á meðgöngu eða getur maður byrjað hvenær sem er?


Sæl og takk fyrir að leita til okkar!

Líkamsrækt sem sniðin er fyrir barnshafandi konur eins og meðgöngusund og meðgöngujóga ætti að henta flestum barnshafandi konum hvenær sem er á meðgöngu.  Það er undir hverri og einni konu komið hvenær hún kýs að byrja að taka þátt í þess háttar líkamsrækt. Margar kjósa að halda áfram þeirri hreyfingu sem þær hafa stundað áður en aðrar breyta um takt á meðgöngunni. Svo eru auðvitað einhverjar sem ekki hafa stundað hreyfingu fyrir meðgöngu en langar að byrja á því á meðgöngunni.  Fyrir nokkrum árum var barnshafandi konum almennt ráðlagt að byrja ekki að stunda nýja tegund af hreyfingu/líkamsrækt á meðgöngu (nema þá líkamsrækt sem sérstaklega er ætluð fyrir konur á meðgöngu) en konur voru þó hvattar til að halda áfram að stunda þá hreyfingu/líkamsrækt sem þær stunduðu fyrir meðgöngu. Nú þykir hins vegar sýnt  að í flestum tilfellum er líkamsrækt örugg fyrir bæði móður og barn hvort sem konan hefur stundað líkamsrækt fyrir meðgöngu eða ekki.

Hlaup eru í sjálfu sér ágætis hreyfing fyrir barnshafandi konur þar sem þau reyna bæði á þolið og styrkinn en ég veit ekki hvort það er sniðugt fyrir að fara út að skokka akkúrat núna og þá er ég að hugsa um tíðarfarið og færðina því það er ekki hægt að mæla með hreyfingu á meðgöngu sem felur í sér hættu á höggi eða falli. Það er auðvitað hægt að verjast hálkunni með mannbroddum og margir hlaupa á þeim. Það er verra fyrir þig að hlaupa í snjónum því á meðgöngu eru liðbönd slakari og því að aðeins meiri hætta á tognun þegar hlaupið er um óslétt land. Svo framarlega sem það er ekki hálka eða snjór þá ætti að vera í lagi fyrir þig að fara út að hlaupa. Það er afar mikilvægt að hlusta vel á líkamann og hægja á ferðinni ef líðanin er ekki góð. Kosturinn við hlaup er líka sá að þú ert algjörlega við stjórnvölinn – getur hlaupið hraðar ef þér líður þannig og bara gengið rösklega ef þér líður þannig.

Á vef Miðstöðvar mæðraverndar er góður pistill um hreyfingu á meðgöngu, kíktu endilega á hann líka.


Hlaupakveðjur,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.