Spurt og svarað

18. júlí 2008

Meðgöngusykursýki

Sæl.

Ég geng með mitt annað barn og er gengin 34 vikur á leið.Ég er með meðgöngusykursýki og greindist með hana mjög snemma eða á 17. viku.Nú er ég komin á svokallaðan lúsaskammt af insúlíni. Ég fór í vaxtasónar á 32 viku og var þá legvatn aukið og krílið orðið 9,5 mörk aðeins yfirstærð en alveg innan marka. En barnið mitt sem ég á fyrir fæddi ég á 40 vikur + 3 daga,og var hún þá 13,5 mörk. En nú er fæðingarlæknirinn búin að tjá mér það að ég verð sett á stað í viku 39. Af hverju er það? Mér skildist í fyrstu að það væri vegna stærðar barnsins? Svo þegar ég spurði ljósuna mína hvað hún reiknaði með stóru barni þá horfði hún á fæðingarþyngd síðasta barns og sagði svo 14-15 merkur en það er ekki stórt barn. Eins langar mér að spyrja með blóðprufur og svona nú fer ég á LSH í eftirlit en svo langt síðan ég hef farið í blóðprufu. Eins drekk ég enga mjólk nema út í sósur og þess háttar en í mjög litlu magni vegna sykursýkinnar. Þarf ég að taka kalk?Hvernig er með sykurfall hjá nýburum kvenna með meðgöngusykursýki?Hverjar eru hætturnar hjá nýburunum? Er búin að heyra fullt af tröllasögum um meðgöngusykursýki.


Sæl!

Eins og þú veist eru tröllasögur mjög háværar og oft á tíðum stórlega ýktar!!! Eins og þú nefnir sjálf í bréfi þínu þá getur sykursýki móður á meðgöngu leitt til þess að fóstur fái of mikla næringu og vaxi of hratt. Þetta gerist á öðrum og þriðja þriðjungi meðgöngu. Það er helsta ástæða þess að fæðing er gangsett á 39. viku meðgöngu hjá móður með sykursýki. Að meðaltali vaxa fóstur mæðra sem eru ekki með sykursýki um 250 gr á viku á þriðja þriðjungi meðgöngu. Hafi fóstur mælst 9,5 mörk á 32. viku meðgöngu er því réttilega áætlað að það geti mælst 14 - 15 merkur við 40 vikur hjá móður sem ekki er með sykursýki. Ef móðir er með sykursýki og barnið fær fyrrgreinda umframnæringu má gera ráð fyrir að það vaxi mun meira en meðalbarnið. Ég geri því ráð fyrir að ljósmóðirin sem áætlaði stærð barnsins hafi ekki tekið tillit til sykursýkinnar. Að fæða stórt barn eykur áhættuna á inngripum í fæðingu. Þú nefnir ekki í bréfi þínu hvort þú hafir greinst með meðgöngusykursýki á fyrri meðgöngu. Helsta hættan fyrir nýburann eftir meðgöngusykursýki er að það falli í blóðsykri. Hættan er meiri ef blóðsykur barnsins hefur verið hár rétt fyrir fæðinguna því þá hefur insúlínframleiðslan einnig verið aukin. Þegar barnið fær svo ekki lengur næringu frá móður sinni er líkaminn samt á fullu að reyna að lækka blóðsykurinn og því fellur blóðsykurinn. Eftirlit með sykursjúkum konum á meðgöngu og þeim sem þróa með sér meðgöngusykursýki er mjög gott hér á landi. Þegar þú kemur í fæðingu, hvort sem þú verður gangsett eða ferð sjálfkrafa í fæðingu þá verður fylgst sérstaklega vel með blóðsykrinum hjá þér og allt gert til að halda honum innan eðlilegra marka í fæðingunni. Eftir fæðinguna er svo fylgst vel með barninu þínu og gripið inn í með þurrmjólkurgjöf eða sykurlausn í æð ef þurfa þykir. Eins og fram hefur komið hér á síðunni áður er fræðilegur möguleiki á því að barn missi meðvitund vegna þess að blóðsykur er of lágur en það eru afar litlar líkur á því þegar eftirlitið er eins gott og við þekkjum. Nú ef svo illa færi þá væru læknar og ljósmæður fljót að bregðast við þannig ástandi. Börn mæðra með sykursýki eru tölfræðilega örlítið líklegri til að þróa hjá sér sykursýki seinna á ævinni en líkurnar eru þó ekki miklar. Barnið hefur mesta þörf fyrir kalk á síðasta þriðjungi meðgöngu þegar vöxtur beinagrindar er sem mestur og myndun tanna er í fullum gangi. Líkami móðurinnar virðist gera ráð fyrir aukinni þörf á kalki því hormónin human chorionic somatomammantropin og estrógen eiga sinn þátt í að auka upptöku kalks og hindra útskilnað með þvagi. Þetta er allt gert tímanlega á meðgöngunni til að búa í haginn fyrir síðasta þriðjung meðgöngunnar. Ráðlagður dagskammtur af kalki eru 1200 mg. á meðgöngu. Ef þú telur þig ekki fá nægjanlegt magn kalks úr fæðu er tilvalið fyrir þig að taka inn kalktöflu. Varðandi blóðprufur á meðgöngunni mæli ég með að þú spyrjir ljósmóðurina þína í meðgönguverndinni.

Gangi þér vel,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
18. júlí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.