Spurt og svarað

11. ágúst 2008

Meðgöngusykursýki og eðlilegar tölur

Ég greindist í síðustu viku með meðgöngusykursýki komin 29 vikur + 3 daga og ég er að velta fyrir mér hvað er eðlilegar mælinga og hvað er óeðlilegt ég er búin að skoða landspítalavefinn og finn hellings lestrarefni um þetta en hvergi um tölurnar. Ég er búin að mæla mig núna 7 sinnum á dag í viku og ég er oftast 3.5 til 4,6 fastandi er samt búin að vera 3,8 oftast svo eftir mat er ég lang oftast 4,6 og 2 tímum seinna 4,2 Ég er þrisvar búin að fara yfir 6 en það stendur á límmiða í bókinni minni að ég megi vera undir 7,5 klukkutíma eftir mat og 5,5 fastandi. Ég kom út úr prófinu 4,6 fastandi eftir klukkutíma en 9 eftir 2 tíma þess vegna er ég látin mæla langtímasykurinn. Ég er 1 sinni búin að fara yfir 7 og var 7,4 eftir að hafa borðað kjúkling og hrísgrjón og nokkrar franskar ofnbakaðar í veislu en eftir 2 tíma var ég 3,5 hrísgrjónin eru náttúrulega ekki það besta ég veit það og sömuleiðis franskarnar en mig langaði aðallega að sjá hvað ég færi hátt. Ég er svo kvíðin og ég er búin að gráta svo mikið og ég er svo áhyggjufull og er að fá martraðir um að barnið fæðist svo stórt og það verði tekið af mér um leið og það fæðist.

Ég þrái nefnilega meira en allt að eignast barnið í vatni á Selfossi og þar er ég kunnug ljósunum en ég er bara svo hrædd um að allt fari á versta veg þegar ég vil hafa allt sem náttúrulegast og einnig er talað um gangsetningu og ég er mjög hrædd við það þar sem ég var með mjög örar hríðar síðast í  4 tíma voru þær stöðugar og komu hver á fætur annarri stundum engin stopp á milli en ég náði að halda mér rólegri og anda mig í gegnum þetta og núna er ég svo hrædd um að þetta verði mikið verra og ég þurfi mænudeyfinguna sem ég vil alls ekki þurfa að fá vil stjórna þessu sjálf.

Vonandi getið þið friðað mig.

Kveðja, Áhyggjufull.

 

Sæl áhyggjufull!
 
Af frásögn þinni að dæma eru blóðsykursgildi þín góð. Eðlilegur blóðsykur liggur á bilinu 4 - 7 mmol/L. Þegar þú ert fastandi á blóðsykur að vera lágur eins og þú lýsir og hækkar svo fyrstu tvo tímana eftir matmálstíma.
 
Eftir því sem blóðsykurstjórnunin á meðgöngu er betri má búast við að meðgöngusykursýki hafi minni áhrif á vöxt og þroska fóstursins og þar með talið áhrif á meðgöngu og fæðingu. Þegar ákvörðun er tekin um inngrip á meðgöngu og fyrir fæðingu vegna sykursýki er tekið tillit til hversu vel hefur gengið á meðgöngunni. Ef þú hugsar vel um þig og gætir vel að mataræði þínu og hreyfingu á meðgöngunni getur verið að þú getir haldið blóðsykrinum í eðlilegu horfi, barnið vaxi eðlilega og þú getir fætt það við þær aðstæður sem þú óskar þér.
 
Ég mæli eindregið með að þú ræðir þessar áhyggjur við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og hún getur útskýrt fyrir þig, með tilliti til fyrri fæðingasögu, hverju þú megir búast við.
 
Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
10. ágúst 2008.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.