Mígreni

12.11.2008

Ég er ófrísk og komin rúmlega 23 vikur á leið og hefur meðgangan gengið svona upp og niður. Í byrjun var ég með mikinn hausverk sem stafaði  af vöðvabólgum en svo lagaðist ég á því en við tók grindarlos. Núna er ég farin að fá mjög tíð og mjög slæm mígrenisköst og er hreinlega orðin hrædd
um að þau geti haft áhrif á fóstrið eða að það sé eitthvað meira að. Ég hef áður en ég varð ólétt fengið mígreni, alveg frá því ég var barn, en mjög sjaldan slæm köst. Yfirleitt bara vægar sjóntruflanir og hausverk. Núna eru köstin hins vegar miklu verri. Ég fæ mjög slæmar sjóntruflanir, það slæmar að ég blindast næstum því tímabundið. Ég verð málhölt og mjög ringluð og finn fyrir mikilli vanlíðan. Heilinn virðist ekki starfa eins og hann á, ég gleymi hlutum man ekki einföld orð og þarf að hafa mikið fyrir því að koma heilum setningum frá mér. Þessu hefur svo fylgt doði og máttleysi í höndum, það mikill að ég finn stundum ekki fyrir fingrunum. Þetta hefur staðið í smá stund (30-60 mín) en svo hefur komið væg ógleði og svo misslæmur hausverkur. Hausverkurinn og ógleðin hrjá mig lítið miðað við hin einkenninn. Í einu svona kastinu fór ég á læknavaktina þar sem læknirinn sá ekkert athugavert. Blóðþrýstingurinn var góður og annað virtist í lagi. En þar sem köstin eru svona rosalega mikil er ég samt orðin hálf hrædd um að þetta hafi áhrif. Ég hef tekið panódíl við hausverknum, sem hefur þó ekki virkað vel og hef tekið einstaka parkódín í neyð. Er möguleiki á að þetta sé eitthvað annað en mígreni? Eitthvað sem ég ætti að láta athuga betur? Er algengt að mígreni versni svona á meðgöngu? Getið þið frætt mig betur um þetta, er eitthvað sem ég get gert annað en þessi týpísku ráð að hvíla mig og allt það?

Með fyrirfram þökk, Unnur.


Sæl Unnur!

Það er gífurlega mikið álag á líkamann að ganga með barn.

Þeir þættir sem taldir eru stuðla að mígrenikasti eru stundum kölluð S-in fjögur. Það eru streita – sultur – svefntruflanir – sætindi. Margir aðrir þættir geta haft áhrif svo sem hormónastarfsemin, umhverfisþættir eins og hiti, kuldi, ljós hljóð og breytingar á loftþrýstingi. Ójafnvægi á blóðþrýsting getur valdið höfuðverkjaköstum.

Það er vel þekkt að mígreni versni á meðgöngu þó það sé ekki algengt. Algengara er að konur finni minna fyrir mígreni á meðgöngu. Breyttur hormónabúskapur í líkamanum á meðgöngu getur þó haft áhrif á tíðari köst. Einnig getur aukið rúmmál vökva í æðakerfinu breytt þrýsting í æðunum og valdið höfuðkvölunum. Slæm líkamsstaða getur aukið tíðni mígrenikastanna.

Hemoglobin eða blóðrauði lækkar oftast vegna aukins vökvarúmmáls í æðakerfinu og það er möguleiki á að þú finnir fyrir því með þessum afleiðingum. Það getur lagast eitthvað ef þú borðar járnríkt fæði og/eða taka bætiefni sem inniheldur járn. Hér getur þú fundið upplýsingar um járnríkt fæði á meðgöngu.

Varðandi mataræði sem ber að forðast vegna mígrenis þá er það til dæmis unnin kjötvara, ostar, rauðvín (sem er hvort er eð ekki æskilegt á meðgöngu), súkkulaði, brasaður og sterkur matur og sítrusávextir. Það er þó umdeilt hvort ákveðnar matartegundir framkalli frekar köst en annað en um að gera að prófa sig áfram.

Til þess að draga úr tíðni kastanna ef þetta er mígreni sem er að hrjá þig þá er mælt með að þú gætir þess að

·         Sofa reglulega (ekki of lítið eða of mikið!)

·         Neytir reglulegra máltíða

·         Forðist þá þætti sem þér finnst örva köstin

·         Hreyfa þig reglulega

·         Gera slökunaræfingar

·         Forðast líkamlega og andlega streitu

Ég mæli með að þú fáir úr því skorið í mæðraverndinni hvort þú sért blóðlítil.

Varðandi verkjalyfin er þér alveg óhætt að taka Panodil stöku sinnum. Notkun parkódíns er reyndar líka óhætt á meðgöngu en þú skalt samt nota það í samráði við ljósmóður/lækni. Það er mun betra að taka inn ráðlögð verkjalyf á meðgöngu en að vera að kvelja sig. Barnið finnur hvernig þér líður!!!

Birtingamynd mígrenis getur verið mjög fjölbreytileg og er kunnuleg eins og þú lýsir henni. Þó tel ég mjög mikilvægt að þú ræðir þessar áhyggjur við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni til þess að ganga úr skugga um að ekkert annað ami að.

Með von um að þetta hjálpi þér.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
12. nóvember 2008.