Spurt og svarað

27. apríl 2011

Átröskun og meðganga

Sæl ljósmóðir.

Ég hef átt við átröskun að stríða í yfir 10 ár. Hef verið að glíma við anorexíu og búlemíu Ég leitaði hjálpar fyrir nokkrum árum og þetta gengur svona upp og niður hjá mér. Eftir að ég komst að því að ég væri ólétt hef ég reynt að taka mataræðið vel í gegn og það hefur gengið ágætlega í raun. Ég kem vel út í blóðprufum, ég borða vel af ávöxtum og grænmeti, fisk og kjúkling, reglulega yfir daginn, drekk mikið vatn, alveg eftir bókinni. Nema þegar ég leyfi mér að fá mér sælgæti eða skyndibita þegar það stendur til, þá líður mér svo óendanlega illa að ég fer beint inn á bað og framkalla uppköst. Ég veit að margar konur eru með mikla ógleði og uppköst á meðgöngu sem líklegast skaða ekki fóstrið þar sem þetta er einn af meðgöngueinkennunum. En ég hef ofboðslega slæma samvisku yfir þessu því ég finn að ég hef enga stjórn á þessu. Þetta er líka farið að gerast nokkuð oft þar sem matarlystin er í hámarki hjá mér núna. Geturðu ráðlagt mér hvað ég eigi að gera? Ég er löngu hætt samskiptum við göngudeild LSH.  Datt í hug að ræða þetta við ljósuna í mæðraverndinni en ég skammast mín svo rosalega mikið fyrir þetta, en ef miklar áhyggjur af krílinu mínu.

Með von um skjót svör.


Komdu sæl.

Það fyrsta sem mig langar að segja við þig er að hætta að skammast þín fyrir þetta, þetta er sjúkómur sem þú ræður ekki við. 

Þú þarf hinsvegar að fá hjálp. Þú segir sjálf að þú hafir ekki stjórn á þessu og þetta hefur tilhneigingu til að versna með tímanum ef ekkert er að gert. Fyrsta skrefið er að segja frá og ljósmóðirin þín eða læknirinn þinn gætu svo hjálpað þér eitthvað í framhaldinu. Á flestum heilsugælustöðvum starfa sálfræðingar sem þú gætir hugsanlega farið til og fengið stuðning frá en það er líka mikill stuðningur fólginn í því að ljósmóðirin þín viti af þessu.

Borðaðu hollt fæði og oft yfir daginn og forðastu þær vörur sem valda þér samviskubiti og því að þú framkallir uppköst.

Þyngdaraukning er nauðsynleg á meðgöngu fyrir vöxt og þroska barnsins.  Það getur verið að það þurfi að fylgjast betur með vexti barnsins þíns sérstaklega í lok meðgöngunnar.

Gangi þér vel.

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
27. apríl 2011.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.