Spurt og svarað

26. apríl 2009

Mikil blæðing en lifandi fóstur

Ég er komin tæpar 13 vikur á leið, hnakkaþykktamæling og skoðunin kom mjög vel út. Fallegt og heilbrigt fóstur miðað við það sem er hægt að sjá með þessum mælingum. En mitt vandamál er að það fór að blæða hjá mér upp úr þurru. Fyrst blæddi lítið og ég fékk að koma til ljósmóður minnar og hlusta á hjartslátt sem róaði mig niður. Seinna þann dag blæddi mjög mikið. Það var brúnt og gamalt túrblóð en þó rosalega mikið. Ég fór upp á spítala og fóstrið sýndi góð lífsmörk og mér var sagt að hvílast og liggja. Þeir sögðu að gamalt blóð væri góðs viti. Ég hvíldi mig vel en það seytlaði brúnu í sólarhring. Svo á þriðja degi fossblæddi fersku rauðu blóði, sennilega hef ég misst um 1-2 lítra af fersku blóði allt í allt. Það kom í gusum. Ég fór upp á spítala aftur viss um að nú væri öll von úti, enn sýndi fóstrið gott lífsmark, hreyfði sig mikið og með góðan hjartslátt. Alveg hreint ótrúlegt.Það var reynt að finna út hvaðan blæðingin kom en það sást ekkert í sónar, ekkert óvenjulegt kringum fóstrið eða fylgjuna. Legháls var langur og lokaður og ekki blæddi frá honum. Þeir halda samt að þetta sé rifa á fylgjukanti og ég á bara að liggja og hvílast svo það grói. Það hefur seytlað örlítið í dag en ég fékk að sjá fóstrið mitt aftur í sónar í dag og það virtist hafa það gott. Hreyfði sig mikið og það róar mig að sjá litla barnið mitt á lífi.

Nú kemur spurningaflóðið. Hvaða áhættu er ég í? Ef það rifnar á fylgju, skaðar það fóstrið? Getur blóðmissirinn haft áhrif á fóstrið mitt? Hvaða líkur eru á því að ég geti átt eðlilega meðgöngu, það sem eftir er af þessari meðgöngu? Hvað get ég gert til að passa extra vel upp á mig? Má ég ekki fara í bað eða er eitthvað sem er alveg bannað fyrir mig að borða? Má ég ekki stunda kynlíf það sem eftir er af meðgöngu? Tek það fram að mér er sama um sjálfa mig, langar bara að gera allt til að barnið hafi það sem best og sleppi heilbrigt frá þessu.

Takk fyrir góðan vef.

Kveðja, Kleópatra.


Sæl Kleópatra!

Leitt að heyra af þessum vandamálum hjá þér. Þetta er sem betur fer ekki algengt og því er erfitt fyrir mig að gefa þér ráð. Þú skalt bíða með að fara í bað/sundlaug/pott og stunda kynlíf þar til þetta er gengið yfir. Þú skalt hvíla þig eins og þér hefur verið ráðlagt og getur að sjálfsögðu farið í sturtu. Það má vel vera að þetta gangi yfir og meðgangan verði eðlileg. Ég vil ráðleggja þér að leita ráða hjá því fagfólki sem hefur annast þig að undanförnu og svo hjá þinni ljósmóður í mæðravernd.

Vona svo að allt gangi vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. apríl 2009.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.