Spurt og svarað

15. nóvember 2007

Mikil þyngdaraukning og lítið sjálfsmat‏

Ég er svona að velta fyrir mér, hvort þið séuð með einhverskonar sérstakt matarprógram fyrir þungaðar konur, sem hafa þyngst of mikið? Málið er það að ég er komin 21 viku á leið og er hreinlega afmynduð, ekki bara af fitu heldur einnig bjúg sem veldur því að sjálfsálitið mitt er hreinlega í molum. Ég vil helst liggja uppí rúmi allan daginn í jogging-gallanum. Ég enda oft grátandi þegar ég þarf að klæða mig eitthvað fínt og meika varla lengur orðið að horfa í spegil. Hef engan áhuga á að sofa hjá manninum mínum, vil ekki einu sinni að hann sjái mig án fata. Svo sé ég sumar sem eru komnar jafn langt og ég og það sést ekki enn á þeim, það sást mjög fljótt á mér. Svo get ég ekki hætt að velta mér uppúr því að ég verði bara alltaf svona ljót og feit, verði aldrei aftur eins og ég var í vextinum og finnist ég bara hreinlega aldrei aftur vera kynvera. Svo er eg líka svo hrædd við að slitna mikið. Ég er gjörsamlega með ónýtt sjálfsmat, hvað get ég gert til að líða betur? Getur þú eitthvað hjálpað mér?


Sæl og blessuð!

Það er leitt að heyra hvernig þér líður og greinilegt að þú þarft á hjálp að halda. Nú veit ég ekki hvað þú hefur verið þung fyrir eða hvað þú hefur þyngst mikið. Ég held að það væri nærtækast að hafa samband við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og ræða við hana. Það sem mér dettur í hug er að þú ræðir við næringarfræðing og sálfræðing.

Mig langar einnig að nefna að margar þungaðar konur hafa verið á „danska kúrnum“. Vigtarráðgjafarnir gefa ráð og sníða mataræðið sérstaklega að þunguðum konum. Þungaðar konur neyta fleiri hitaeininga en venjulega er ráðlagt á þessu mataræði og sleppa því að borða lifur. Þetta er fyrst og fremst hollt og fjölbreytt mataræði sem samræmist almennum ráðleggingum til barnshafandi kvenna að mestu leyti. Eins og þú veist, þá er danski kúrinn lífstíll sem hvetur t.d. til aukinnar neyslu á grænmeti, ávöxtum, fiski og kjöti en dregur úr neyslu á sætindum og gosdrykkjum.

Það gæti verið sniðugt fyrir þig að fara í sund því það getur bætt líðan og minnkað bjúg. Ég geri mér grein fyrir að það getur verið erfitt fyrir þig ef sjálfsímyndin er léleg en ef þú treystir þér þá getur það verið gott fyrir þig. Kannski treystir þú þér í meðgöngusund. Stundum er líka gott að fara í sundlaugarnar á kvöldin þegar það er rólegt.

Það er alveg ljóst að þú þarft að gera eitthvað sjálf í þínum málum en það er um að gera að fá alla þá hjálp sem þú getur fengið.

Ég ráðlegg þér eindregið að gera eitthvað í þessum málum strax í dag - ekki bíða með það.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15. nóvember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.