Spurt og svarað

04. ágúst 2014

Mikið blóðleysi á meðgöngu

Góðan daginn.
Ég er búin að leita að svörum en finn ekkert. Þannig er mál með vexti að ég er ólétt af barni númer tvö og er alveg rosalega blóðlítil eða lág í hemoglobini. Ég er gengin tæpar 20v og mældist fyrir viku 93 og tók mig verulega á, tek járntöflur, borðaði kjöt (borða venjulega ekki kjöt), drakk græna djúsa og tek c vitamin með járninu. Borða venjulega mjög næringarríkan og hreinan mat. Fór í dag aftur í mælingu viku seinna, bætti á mig 2kg en hafði lækkað enn meira i hemoglobini eða niður í 91 :/ Mín spurning er, hvað veldur því að ég fari stöðugt niður á við.
Ég er komin í 50% vinnu en vinnan mín er mjög líkaml ega erfið og hitinn hér er búinn að vera yfir 30 gráðum i skugga í 2 mánuði (er mikið úti). Blóðþrýstingurinn minn er augljóslega mjög lár eða 110/60 og ég er alveg úrvinda. Hefur þetta skaðleg áhrif á barnið? Læknirinn talaði um að senda mig uppá sjúkrahús á núna eftir 2 daga ef ég sýni ekki fram á bætingu, hvað er gert þar? Getur blóðflokkurinn minn haft eth að segja, ég er 0 negativ.
Kær kveðja

 Sæl
Á meðgöngunni eiga sér stað miklar breytingar í líkama konunnar, breytingarnar ná til allra líffærakerfa. Í blóðrásarkerfinu verður t.d. töluverð þynning á blóðinu til að anna aukinni eftirspurn eftir súrefni og næringarefnum. Við þessa þynningu er eðlilegt að lækka aðeins í hemoglobini og telst væg lækkun eðlileg og ekki þörf á meðhöndlun. Í byrjun meðgöngu viljum við að konan sé yfir 110g/L og við 28. viku viljum við að hún sé yfir 105g/L.
Mælingarnar hjá þér eru heldur lágar og kannski er bætt mataræði og töflumeðferð ekki að hjálpa þér nógu vel. Hinsvegar er blóðþrýstingurinn þinn einn og sér ekki mjög lágur og ekki til að hafa áhyggjur af.  Auk þess að vera lág ertu einnig með einkenni af blóðleysinu, algengasta einkenni blóðleysis er einmitt mikil þreyta.
Algengasta ásætða blóðleysis á meðgöngu er járnskortur sem er oftast auðvelt að laga með járngjöf. Ef þú ferð á sjúkrahús til meðhöndlunar verður þér lílega boðið að fá járn í æð til að hækka þig vel upp.
Blóðleysi á meðgöngu getur haft áhrif á heilsu barnsins þíns. Flest börn taka sér þá næringu sem þau þurfa og situr móðirin þá á hakanum. Þó svo að flest börn taki það sem þau þurfa er ekki öruggt að öll börn fái nóg, ef móðirin er blóðlaus og fær ekki meðhöndlun er hætta á að barnið fæðst með litlar járnbirgðir og verði  blóðlaust  eftir fæðinguna. Blóðleysi á meðgöngu hefur einnig verið tengt við hættu á fyrirburafæðingu og að barnið verði of létt við fæðingu.
Áhrif á heilsu móðurinnar eru einnig töluverð, blóðleysi dregur úr orku og getu líkamans til að berjast við sýkingar. Einnig getur verið erfitt fyrir móðurina að vinna upp blóðtap sem verður fæðingu ef hún er blóðlaus á seinnihluta meðgöngu. Móðirin getur fundið einkenni eins og þreytu, svima og hraðan hjartslátt. Blóðleysi á meðgöngu hefur einnig verið tengt aukum líkum á fæðingarþunglyndi.
Gangi þér vel,


Með bestu kveðu,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. ágúst 2014

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.