Aukaskoðun hjá ljósmóður

01.10.2007

Sælar og takk fyrir góðan vef

Ég fór í skoðun þegar ég var komin akkurat 13 vikur og allt kom mjög vel út þá og ég fékk annan tíma þegar ég verð komin 17 vikur. Nú er ég komin rúmar 14 vikur og finnst e-ð svo langt þangað til ég fer í skoðunina! Ég missti fóstur í fyrra (reyndar bara komin 10 vikur) og það gerir mig svolítið stressaða núna varðandi dulið fósturlát. Ég hef engar ástæður til að ætla að allt gangi ekki vel núna, engir verkir blæðingar eða neitt því um líkt en samt þætti mér voða gott að geta farið kannski þegar ég er komin rúmar 15 vikur og hlustað hjartsláttinn hjá fóstrinu. Er það hægt?  Mynduð þið segja að þetta séu óþarfar áhyggjur hjá mér og að ég ætti bara að bíða róleg fyrst allt virðist ganga vel?Komdu sæl.

Ef þér líður þannig að þú myndir róast við að fá að fara í aukaskoðun og heyra hjartsláttin þá er engin spurning að þú átt að panta tíma hjá ljósmóðurinni þinni.  Ef þú þarft að bíða of lengi, að þínu mati, eftir tíma geturðu reynt að bóka þig í símatíma hjá henni og kannski getur hún skotið  þér einhversstaðar inn á milli til að hlusta hjartsláttinn.

Kveðja

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
1. október 2007.