Minni áhugi á líkamsrækt

29.12.2008

Sælar ljósmæður og takk kærlega fyrir þennan vef!

Þannig er mál með vexti að ég hef í mörg ár hreyft mig mikið og haft mikinn áhuga og þörf fyrir hreyfingu. Núna er ég komin 20 vikur á leið og áhuginn bara hvarf um daginn. Ég skil þetta ekki. Ég er ekki með stóra kúlu og ég er hraust. Ég finn reyndar enn fyrir þreytu þó svo að ég sé komin svona langt á leið. Ég skammast mín fyrir að vera ekki fær í flestan sjó vegna þess að margar konur segja að það að vera ófrísk breyti engu. Þær geti gert allt sem þær voru vanar að gera. Ég finn alveg fyrir því að vera ófrísk. Ég er með tvær spurningar:   

1. Er eðlilegt að finna fyrir meiri þreytu alla meðgönguna?

2. Er eðlilegt að áhugi á hreyfingu hafi bara horfið einn daginn?

Kveðja Kristín

 

Sæl Kristín!

Það er mjög einstaklingsbundið hvernig konur finna fyrir meðgöngu. Heilbrigðustu konur finna talsvert fyrir því að ganga með barn á meðan konur sem eru veikar fyrir finna jafnvel ekkert fyrir meðgöngu og öfugt. Það er gífurlegt álag á líkama verðandi móður að sjá fyrir þeim mikla vexti og þroska sem fóstrið tekur út. Þegar líða fer á meðgönguna eykst vöxtur barnsins og krefst mikils af móðurinni. Það er ekkert óeðlilegt þó þú finnir fyrir þreytu og eigir erfitt með að stunda þá hreyfingu sem þú ert vön. Mikilvægast er að reyna að hreyfa sig eitthvað smávegis á hverjum degi þar sem þú ert vön að hreyfa þig. Það að áhuginn hverfi bara einn daginn er eitthvað sem ég get hreinlega ekki svarað nema með því að líkaminn hafi verið að svara auknu álagi.

Það er ekki að ástæðulausu að það að ganga með barn sé nefnt að vera „ófrískur“ og „óléttur“! Þau orð lýsa kannski ástandinu hjá sumum konum og eru í raun lýsing á eðlilegu ástandi.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
29. Desember 2008.