Minnkandi bumba á 38. viku

15.06.2012

Hæ hæ

Ég er komin 38 vikur og var að koma frá ljósmóðurinni. Hún mældi bumbuna og sagði hana vera búna að minnka, er eðlilegt að bumban minnki þegar maður er komin svona langt? Ætti hún ekki bara að stækka?Sæl!

Já það er einmitt eðlilegt að bumban „minnki“ svona seint á meðgöngunni, oft er líka talað um að hún sígi. Á þessum tíma er algengt að kollur barnsins sé fast skorðaður í mjaðmagrind móður, þegar það gerist getur bumban lækkað því höfuð barnsins er komið neðar í mjaðmagrind móður. Bumban er því ekki að minnka heldur er barnið aðeins að færa sig neðar í grindina og þannig að undirbúa sig fyrir fæðinguna.


Með kveðju,
Signý Dóra Harðardóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur
14. júní 2012