Spurt og svarað

24. september 2016

Slímugar hægðir

Dóttir mín er 11 vikna og hefur í nokkrar vikur kúkað frekar slímugum hægðum annað slagið og stundum finnst mér hægðirnar líka vera frekar fljótandi. Hún rembist stundum þegar hún kúkar en virðist ekki finna til því hún grætur ekki. Hún er bara að fá brjóstamjólk. Mér var sagt að slímugar hægðir gætu bent til þess að ég væri að borða eitthvað sem hún þolir ekki eða væri ekki búin að venjast. Ég hef reynt að finna út hvort ég hef borðað mikið af ákveðnum matartegundum eins og mjólkurvörum, brauði eða öðru þegar hún hefur þessar slímugu hægðir en mér finnst ég ekki geta tengt þetta neinu ákveðnu, allavega ekki hingað til. Hún er líka farin að prumpa meira ef það breytir einhverju og stundum kemur lykt. Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af og er vont/slæmt fyrir hana ef hægðirnar eru slímugar? Í nokkra daga hafa hægðirnar líka verið grænar en ég þurfti að taka lyf, verkjalyf og fara í svæfingu gæti það gert hægðirnar hennar grænar?

Komdu sæl, mér heyrast þetta vera sæmilega eðlilegar hægðir. Það er eðlilegt að rembast og ef hún er ekki óvær og dafnar vel er ekkert sem bendir til þess að neitt sé að. Það er ólíklegt að tengsl séu milli slímugra hægða og mataræðis hjá þér. Nú er að koma að því að hún fari í 3. mán. skoðun og ég ráðlegg þér að taka með þér hægðableiu og sýna lækni/hjúkrunarfræðingi í ungbarnavernd hægðirnar. Það er frekar erfitt að segja nokkuð með vissu án þess að sjá með berum augum hvernig þetta lítur út. Gangi ykkur vel. 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.