Missi þvag þegar ég hósta eða hlæ!

26.08.2008

Sæl!

Ég er komin 27 vikur og er að ganga með mitt annað barn. Þegar ég hósta eða hlæ mikið þá missi ég þvag. Er það eðlilegt? Þetta gerðist ekki á fyrstu meðgöngu.


Sæl

Þetta sem þú nefnir heitir áreynsluþvagleki. Nú þegar þú ert þunguð þá eykst álagið á grindarbotnsvöðvana og þeir halda ekki eins vel við blöðruna. Besta ráðið er að gera grindarbotnsæfingar til að styrkja þessa vöðva. Þú getur fundið þér einhvern fastan tíma til að gera æfingarnar t.d fyrir framan sjónvarpið. Einnig er mikilvægt að stunda þessar æfingar eftir fæðinguna þegar álagið á grindarbotnsvöðvana hefur náð hámarki. Annars ættu grindarbotnsæfingar að vera fastur þáttur í daglegu lífi okkar kvenna til að halda vöðvunum í formi þar sem þær hafa mikið forvarnargildi fyrir þvagleka og legsigi á efri árum, nú og svo til að auka kynlífsánægju.

Kveðja,

Tinna Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. ágúst 2008.