Misstór heilahvel

21.12.2011
Góðan daginn og takk fyrir góða síðu!

Ég var að koma úr 12 vikna sónar. Allt var eðlilegt nema að töluvert meira vatn var í hægra heilahvelinu og heilinn virtist vera minna þroskaður þeim megin. Skiptingin milli hvelja sást greinilega og höfuðið var í réttri stærð. Okkur var sagt að í flestum tilfellum lagaðist þetta af sjálfum sér. En ef ekki, hvað getur það þýtt? Ég reyndi að leita á netinu og finn engar upplýsingar.


Sæl!

Því miður verður tíminn að vinna með þér því á þessari stundu er ekki hægt að svara hvað er á ferðinni, en ætti að skýrast við 16 vikur. Það er ekki hægt að skoða neitt fyrr því við verðum að leyfa heilanum að þroskast betur til að geta gert betri greiningu.

 
Kær kveðja og gangi þér vel,

María J. Hreinsdóttir,
ljósmóðir fósturgreiningardeild LSH,
21. desember 2011.