Misstór tvíburafóstur

13.12.2006

Sælar!

Ég er ófrísk af tvíburum. Fór í sónar 8 vikur og 6 dagar og þar kom í ljós að annað fóstrið er nokkuð minna en hitt. Er þetta algengt hjá tvíburum eða er þetta eitthvað sem þarf að hafa áhyggjur af? Ég varð þunguð eftir Pergotime meðferð og er að spá hvort það geti verið að annað eggið hafi frjóvgast kannski 4 dögum á undan eða hvað? Það voru tveir sekkir þannig að þetta er örugglega tvíeggja.


Sæl!

Það er ekki óalgengt að það sé stærðarmunur á milli tvíbura og þarf ekkert að vera óeðlilegt við það ef hann er ekki mikill. Ég reikna með að þú farir aftur í ómskoðun við 12 vikur þá er mælt aftur og er þá oft orðinn minni eða enginn munur á milli tvíburanna. Þetta er algengara þegar komið er á síðasta þriðjung og þess vegna eru konur með tvíbura vaxtarmældar oftar.

Kær kveðja,

María Jóna Hreinsdóttir,
ljósmóðir - deildarstjóri fósturgreingadeildar LSH,
13. desember 2006.