Spurt og svarað

28. júní 2009

Mjólkurþistill á meðgöngu

Er eitthvað sem mælir gegn því að taka mjólkurþistil á meðgöngu?


Sæl og blessuð!

Mjólkurþistill hefur verið notaður í yfir 2.000 ár til að meðhöndla vandamál í lifur og gallblöðru. Mjólkurþistill hefur einnig verið notaður til að auka flæði brjóstamjólkur. Samkvæmt þeirri heimild sem ég hef þá hafa verið gerðar 2 litlar rannsóknir á notkun mjólkurþistils á meðgöngu þar sem útkoman var góð en þetta hefur ekki verið staðfest með stærri rannsóknum þannig að notkun hans er ekki talin örugg á meðgöngu og við brjóstagjöf enn sem komið er.

Margir telja að afurðir sem teljast hreinar náttúruafurðir séu með öllu skaðlausar en það er víst langt frá því. Vissulega geta margar náttúruafurðir haft góð áhrif á ákveðin vandamál en á sama tíma getur þessi sama afurð haft slæm áhrif á aðra starfsemi í líkamanum eða komið ójafnvægi á líkamsstarfsemina.  Það er með náttúrulyf eins og önnur lyf að það þarf að vega og meta ávinning af því að taka inn lyfið til móts við þá áhættu sem það getur falið í sér. Mjólkurþistill er yfirleitt notaður þegar um lifrarsjúkdóma er að ræða þannig að ef eitthvað slíkt er að hrjá þig þá er rétt að þú ræðir það við lækni hvort hugsanlega sé ávinningur af því fyrir þig að taka inn Mjólkurþistil.

Gangi þér vel.

Kær kveðja,


Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
28. júní 2009.

Heimild: http://www.mayoclinic.com/health/silymarin/NS_patient-milkthistle

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.