Spurt og svarað

23. apríl 2007

MOSA og þungaðar konur

Mósa spurning --- langar að spyrja hvort það sé í lagi fyrir óléttar konur að umgangast þá sem eru smitaðir af mósa veirunni?Komdu sæl og takk fyrir spurninguna,

MÓSA bakterían er í raun “stökkbreyting” á algengri bakteríutegund sem kallast Staphylococcus aures sem lifir að staðaldri á húð og einkum í nefi u.þ.b. 20-40% manna án þess að valda nokkrum einkennum eða skaða. Þessi baktería getur hins vegar valdið skaða ef hún kemst í kynni við t.d. sár eða aðra vefi líkamans og getur þá valdið misalvarlegum sýkingum. Við þessari sýkingu eru gefin sýklalyf sem eru næm fyrir Meticillini (einn undirflokkur penicillina eins og nafnið bendir til).  MÓSA bakterían er hins vegar ónæm fyrir þessari gerð sýklalyfja og til að uppræta hana  þarf mun sterkari sýklalyf sem eru dýrari og geta haft ýmsa leiðinda fylgikvilla fyrir viðkomandi einstakling og þegar til lengri tíma er litið samfélagið!

MÓSA bakterían, eins og margar aðrar bakteríur, getur lifað á húð og í nefi manna án þess að valda nokkrum einkennum og sá sem hýsir hana hefur ekki hugmynd um að hún lifi góðu samlífi með honum. En, því miður getur bakterían dreifst frá þeim sem hýsir hana og valdið smiti, komist hún í móttækilegan einstakling (sem fræðilega gæti verið barnshafandi kona þar sem hennar ónæmiskerfi er viðkvæmara ), eða nýr einstaklingur verður beri. Helsta dreifingar- og smitleið er með höndum til dæmis þeirra sem bera hana í nefi.

Að þessum formála sögðum þá held ég samt að ólíklegt sé í sjálfu sér að “heilbrigð” barnshafandi kona sé í sérstakri áhættu á að smitast af MÓSA bera og/eða verða veik sjálf. Ef hins vegar þú ert að tala um einhvern ákveðinn einstakling sem er í meðferð vegna MÓSA smits er líklega skynsamlegt að hafa í heiðri góðan handþvott og almenna skynsemi í samskiptum við viðkomandi og jafnvel bíða þar til sýklalyfjameðferð er lokið með að heimsækja viðkomandi.

Gangi þér vel og kærar kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
23. apríl 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.