Spurt og svarað

19. apríl 2011

Myglusveppur í íbúð

Sælar ljósmæður!

Við eigum von á barni í sumar og urðum fyrir því áfalli að uppgötva myglusvepp í íbúðinni okkar. Eru til einhverjar upplýsingar um áhrif myglusvepps á meðgöngu? Ég hef heyrt að hann geti haft mjög neikvæð áhrif á heilsu ungbarna og því höfum við hugsað okkur til hreyfings áður en litla barnið fæðist. En hversu áríðandi er að ég sé ekki í íbúðinni lengur? Tek það fram að utan flensunnar og morgunógleði, hef ég verið nokkuð brött á meðgöngunni.

Með kveðju.


Sæl og blessuð!

Á bandarísku vefsíðunni OTIS sem hefur það markmið að miðla áreiðanlegum upplýsingum um þætti sem geta haft áhrif á heilsu barna í móðurkviði og við brjóstagjöf eru upplýsingar um áhrif myglusvepps og ráðleggingar til verðandi mæðra. Þar er sagt að í dýrarannsóknum hafi komið fram að auknar líkur væru á fósturskaða hjá afkvæmum þeirra sem byggju í nálægð við myglusvepp en þar segir líka að ekki sé hægt að yfirfæra þessar niðurstöður á mannfólkið þar sem lifnaðarhættir okkar eru öðruvísi. Samkvæmt þessu upplýsingum er lítið vitað um þetta. Ef myglusveppur finnst á heimili barnshafandi kvenna eru þeirra ráðleggingar að láta fjarlægja hann sem fyrst. Ef barnshafandi kona finnur fyrir einhverjum einkennum sem hugsanlega má rekja til myglusveppsins ætti hún að leita læknis.

Það eru svo fleiri upplýsingar í þessum bækling um myglusvepp á meðgöngu.

Ég vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni. Endilega leitið til heilsugæslunnar ef þið hafið frekari spurningar.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
19. apríl 2011.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.