Naflastrengur vafinn um háls

26.04.2009

Sæl og kærar þakkir fyrir frábæran vef sem hefur reynst mér og mörgum öðrum mjög nytsamlegur!

Er algengt að naflastrengur vefjist um hálsinn á börnum í móðurkviði og valdi andláti barns? Hvaða helstu þættir valda fósturdauða í móðurkviði? Ég veit að ég á ekki að vera að hugsa um þetta - en það eru samt svona hugsanir sem læðast í hausinn á mér sérstaklega er ég ligg andvaka upp í rúmi á kvöldin. Ég er gengin 30 vikur með þriðja barni og allt hefur gengið vel- (ég pældi ekki í svona hlutum í fyrri meðgöngum) kannski er ég eitthvað afbrigðileg að vera að velta svona hlutum fyrir mér en ég er farin að hafa áhyggjur af þessum blessaða naflastreng!

Með ósk um svar sem fyrst.


Sæl og blessuð!

Þú ert alls ekki afbrigðileg að vera að velta þessu fyrir þér, margar konur velta slíku fyrir sér á meðgöngu. Það er auðvitað leitt ef slíkar áhyggjur halda fyrir þér vöku eða valda þér vanlíðan. Reyndu þó að hugsa um að það eru mestar líkur á því að barnið þitt sé heilbrigt og að allt verði í góðu lagi.

Það er nokkuð algengt að naflastrengur vefjist um háls barna án þess að gera þeim neitt. Orsakir þess að barn deyr í móðurkviði geta verið margar og stundum finnst engin orsök. Þær orsakir sem helst eru þekktar eru sýkingar, klemma á naflastreng, vandamál með fylgju eða naflastreng, blóðflokkamisræmi, sjúkdómar barns eða sjúkdómar móður.

Vona að þú njótir meðgöngunnar og að allt gangi vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. apríl 2009.