Náladofi í bumbu

10.12.2007

Sælar og takk fyrir flottan vef!

Ég er komin 25 vikur á leið og undanfarnar 2-3 vikur er ég búin að vera með mjög staðbundinn náladofa ofarlega hægramegin í bumbunni! Alltaf á nákvæmlega sama ca. lófastóru svæði. Kemur nánast alltaf ef ég ligg eða og
stundum ef ég sit og heldur stundum fyrir mér vöku.  Engin af vinkonum mínum kannast við svona einkenni á meðgöngu... Hvað gæti þetta verið og þarf ég nokkuð að hafa áhyggjur af þessu?

 


 

Komdu sæl. 

Náladofi getur bent til þess að blóðflæði um æð minnki mikið vegna stöðu eða að þrýstingur verði á taug sem liggur þarna um.  Hvort heldur sem er þá er sennilegast að lega barnsins hafi mikið með þetta að gera. Barnið getur þrýst á æð eða taug alltaf á þessu sama svæði og valdið þessum dofa.  Þú gætir reynt að ýta við barninu og vita hvort þetta lagast ef það breytir um stöðu inn í þér eða valið þér öðruvísi stellingar t.d. þegar þú sefur.  Það að náladofinn er ekki alltaf, hann hverfur inn á milli er gott og bendir til að þetta sé tímabundið vandamál.

Bestu kveðjur

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
10.desember 2007.