Neysla á meðgöngu

16.07.2007

Hæ, hæ!

Ég er að ganga með mitt fyrsta barn og er komin 26 vikur. Ég er búin að vera i neyslu (kannabis) nánast allan tíman fram að þessu, reyki kannski í 10 daga og ekkert i nokkra. Ég hef ekki þorað að tala um þetta við ljósmóðurina af hræðslu við að barnaverndarnefnd verði kölluð til en fyrst og fremst af skömm :(  Mer líður hræðilega með þetta :(

Ég er staðráðin í að hætta núna og hef ekkert reykt i nokkra daga og fer á AA fundi. En hvernig er með barnið mitt? Hvað get ég gert til að laga það sem getur hafa skaðast?  Hvað a ég að gera?

Með von um hjálp.

 


Sæl, þakka fyrirspurnina!

Það er erfitt að segja til um hvað hefur skaðast varðandi barnið, það getur enginn svarað því hvort skaði hefur orðið og hvernig. Það er ekkert sem þú getur lagað nema að vera staðráðin í því að hætta neyslunni, það er það besta sem þú gætir gert fyrir barnið núna, því taugakerfið er í mikilli þróun á þessum tíma.

En ég myndi mæla með því að þú talaðir um þetta við ljósmóðurina þína það er alltaf betra að vera hreinskilin, þá færðu líka þann stuðning sem þú þarft, og þér liði betur með þetta. Þú gætir verið í eftirliti á Kvennadeild Landspítalans. Þar eru ljósmæður sem eru með mikla reynslu hvað varðar konur sem eru í neyslu.

Það er líklegt að barnaverndarnefnd verði kölluð til en ef þú stendur þig þá eru meiri líkur á að þú getir fengið að hafa barnið þegar það er fætt.

Með góðri von um að þú standir þig stúlka, því ég held að það séu töggur í þér.

Kær kveðja,

Sigrún E. Valdimarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
16. júlí 2007.