Neysla króms á meðgöngu

30.12.2006

Hæ, hæ!

Er gengin 20 vikur og gengur mjög vel, er líkamlega og andlega hraust og orkumikil. Þó er einn hængur á og hann er sá að ég er ferlegar sjúk í sykur og hef áhyggjur af því að hann fari ekki vel i barnið auk þess sem að hann fer ekki vel í mig sjálfa. Því langar mig að spyrja hvort að það sé óhætt fyrir mig að taka inn aukalega króm til að koma jafnvægi á blóðsykurinn, ef ekki eru þá einhver önnur góð ráð í boði.

Með bestu kveðju, mamma hans Kára.

 


 

Sæl og blessuð!

Barnshafandi konur ættu ekki að taka inn meira af krómi en gefið er upp í ráðlögðum dagskömmtum fyrir konur á barnseignaraldri sem er 0,05–0,2 mg, samkvæmt National Academy of Sciences.

Gott ráð til að koma jafnvægi á blóðsykurinn er að borða hollan mat og borða oftar og lítið í einu. Það getur verið gott fyrir þig að auka neyslu á grófu korni, grænmeti, mögru kjöti og fiski en reyna að minnka neyslu á mat sem inniheldur hvítt hveiti og sykur. Þegar sykurþörfin gerir vart við sig er betra að grípa hollan ávöxt heldur en sælgæti eða kökur.

Vona að þetta slái aðeins á sykurpúkann!

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
30. desember 2006.