Notið hanska við vorverkin í garðinum

04.05.2008

Góðan daginn.

Ég er komin 5 vikur á leið en ég missti einmitt fóstur í febrúar þegar ég var komin 7 vikur. Nú er ég eðlilega að reyna að passa upp vel upp á allt þó að ég viti vel að ég geti í raun ekki komið í veg fyrir að þetta endurtaki sig ef ekki er allt með felldu.

En ég hef heyrt að óléttar konur eigi ekki að vinna með mold, í garðvinnu og slíkt, vegna ákveðinna sýkla sem leynast í moldinni. Er eitthvað til í þessu? Ég er með lítinn garð sem ég dýrka að dunda í á vorin og mér fyndist leiðinlegt að þurfa að sleppa því.

Kærar þakkir.


 

Sæl og blessuð!

Það er alveg rétt hjá þér að það geta verið sýklar í moldinni sem geta verið hættulegir, t.d. frumdýrið bogfrymill. Bendi þér á að lesa grein Helgu Finnsdóttur, dýralæknis um Bogfrymlasótt sem er á vefsíðunni hennar.

Þú getur þó alveg unnið í garðinum en mikilvægt er að vera með hanska við garðvinnu og snerta þá ekki slímhúðir í munni, augum eða nefi með hönskunum.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
4. maí 2008.