Spurt og svarað

15. nóvember 2010

Ný rannsókn á notkun vægra verkjalyfja á meðgöngu

Komið þið sælar ljósmæður og takk fyrir upplýsandi vef!

Hvað segið þið um þessa dönsku rannsókn frá 8. nóvember sl. um að notkun parasetamóls á meðgöngu sé skaðleg, þá sérstaklega drengjafóstrum. Er þetta eitthvað sem við verðandi mæður eigum að taka mark á? Ef svo er, hvað annað er þá í boði þegar þörf er á verkjalyfjum eða hitalækkandi lyfjum?


Sæl og blessuð!

Þessi rannsókn fjallar um notkun á vægum verkjalyfjum (parasetamól, aspirín, íbúfen) á meðgöngu og áhrif þess á drengjafóstur og hugsanleg frjósemisvandamál þeirra síðar á ævinni.

Hópur danskra og finnskra kvenna svaraði spurningum um verkjalyfjanotkun og hluti dönsku kvennanna svaraði einnig spurningum í síma. Eistu drengjanna voru metin af reyndum barnalækni m.t.t. þess hvort þau væri gengin niður við fæðingu. Hjá flestum ganga eistun niður í pung á 7.-9. mánuði fósturlífs, en í fáeinum tilvikum er aðeins annað, eða hvorugt eistað gengið niður við fæðingu. Þá er talað um launeista sem getur verið áhættuþáttur fyrir frjósemisvanda síðar á ævinni. Í danska hópnum fundust tengsl á milli notkunar á vægum verkjalyfjum á meðgöngu og launeista. Eftir því sem verkjalyfjanotkun var meiri því hærri var tíðni launeista, ef tekin voru inn verkjalyf af fleiri en einni tegund hækkaði það tíðnina og svo voru tengsl á milli þess að nota væg verkjalyf á 2. þriðjungi meðgöngu og að fæða dreng með launeista. Í finnska hópnum fundust hins vegar engin tengsl á milli notkunar vægra verkjalyfja á meðgöngu og launeista hjá drengjum. Í rannsókninni kom einnig fram að parasetamól minnkaði framleiðslu á testósteróni í rottufóstrum.

Viðbrögð sérfræðinga við þessum niðurstöðum eru mismunandi en líklega er okkur óhætt að taka þessum niðurstöðum með fyrirvara þar sem eingöngu sýnt er fram á tengsl en ekki beina orsök. Vissulega eru þetta vísbendingar og þörf á frekari rannsóknum.

Hér á landi hefur konum yfirleitt verið ráðlagt að taka inn parasetamól ef þörf er á vægum verkjalyfjum á meðgöngu en almennt er ekki ráðlagt að taka íbúfen og aspirín nema í einstaka tilfellum. Parasetamól hefur hingað til þótt öruggt lyf á meðgöngu og er einnig notað til hitalækkunar þegar þörf er á því. Í ljósi þessarar rannsóknar ættum við að hafa eftirfarandi í huga:

  • Líklega er það langvarandi notkun sem hefur áhrif en ekki það að taka stöku sinnum verkjalyf t.d. vegna höfuðverkjar. 
  • Flestar konurnar í rannsókninni sem tóku inn parasetamol á meðgöngunni eignuðust ekki drengi með launeista.
  • Það ætti enginn að nota verkjalyf til lengri tíma á meðgöngu án samráðs við lækni og það þarf að vera mjög góð ástæða til að taka inn verkjalyf. 

Ég vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni. Við fylgjumst áfram með þessum málum.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
15.nóvember 2011.

Heimildir

Fergus, W. (2010). Painkillers, pregnancy and male reproductive problems. Sótt á vef BBC 15. nóvember 2010: http://www.bbc.co.uk/blogs/thereporters/ferguswalsh/2010/11/painkillers_pregnancy_and_male_reproductive_proble.html

Helga Bragadóttir (2010). Upplýsingar um aðgerð vegna launeista. Sótt á vef Landspítala 15. nóvember 2010: http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/htmlpages/index2.html#launeista.html

Kristensen, D.M., o.fl. (2010). Intrauterine exposure to mild analgesics is a risk factor for development of male reproductive disorders in human and rat. Human Reproduction, 0(0), bls. 1–10. Sótt 15. nóvember 2010: http://www.oxfordjournals.org/eshre/press-release/freepdf/deq323.pdf

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.